139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

reglugerð um gjafsókn.

128. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. forsætisráðherra varðandi fyrirspurn mína um fundarstjórn forseta og neyslustaðalinn hef ég endurvakið gamlar fyrirspurnir, að vísu bara um ársgamlar, þannig að sumir upplifa það kannski eins og þeir lifi sama daginn aftur og aftur, en það er svo sem kannski ekkert nýtt þegar kemur að þessari ríkisstjórn. Nú er ég hingað komin til að ræða reglugerð um gjafsókn. Ég beindi þessari fyrirspurn að hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, og vil nú beina sömu fyrirspurn til hæstv. nýs dómsmálaráðherra, Ögmundar Jónassonar.

Gjafsókn er þegar ríkið greiðir kostnað fólks af því að bera mál fyrir dómstóla. Í lögum um meðferð einkamála kemur fram að ráðherra er sá sem kveður um hámark gjafsóknarfjárhæðar og um skilyrði gjafsóknar. Í maí 2008 ákvað þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að nýta sér þessar víðtæku lagaheimildir sem ráðherrann hefur með því að breyta tekjuviðmiðum vegna gjafsóknar. Tekjuviðmið fyrir einstaklinga voru þá sett upp á 133 þús. kr. í mánaðarlaun, eða fyrir hjón 208 þús. kr.

Hæstv. þingmaður Atli Gíslason gagnrýndi það mjög þá og benti á að lögum um gjafsókn hefði verið breytt árið 2005 til að koma í veg fyrir að fólk fengi gjafsókn vegna fordæmismála. Með þessum aðgerðum hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, væri enn frekar verið að þrengja að möguleikum fólks til að koma málum fyrir dómstóla.

Til að gera sér betur grein fyrir því hversu fáránlegar og smánarlegar þessar upphæðir eru má nefna að atvinnuleysisbætur í dag eru um 150 þús. kr. og byrjunarlaun í lægsta þrepi hjá Starfsgreinasambandinu er um 151 þús. kr. þannig að fólk á atvinnuleysisbótum á í rauninni ekki rétt á því að fá gjafsókn.

Hv. þm Álfheiður Ingadóttir ásamt fleirum lagði fram mál á 137. löggjafarþingi þar sem hún lagði til að sú breyting sem gerð var 2005 væri tekin til baka þannig að hægt væri að veita gjafsókn í málum sem hefðu verulega almenna þýðingu eða vörðuðu verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

Því vil ég gjarnan bæta spurningu við fyrirspurn mína: Getur ráðherrann hugsað sér að taka til baka þessa breytingu? Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að fólk með 133 þús. kr. í mánaðarlaun getur hvorki sótt né varið mál fyrir dómstólum. Stjórnvöld hafa ítrekað bent fólki á að eina leiðin til að leita réttar síns sé að fara með mál fyrir dómstóla, en það kostar mjög mikla peninga, peninga sem fólk á ekki, sérstaklega ekki í þessu erfiða efnahagsástandi.

Ég hef því lagt fram þrjár spurningar varðandi hvort ráðherrann hyggst breyta reglugerð um skilyrði gjafsóknar. Ég vil bæta við hvort ráðherrann geti hugsað sér að gera breytingar á 126. gr. laganna, um (Forseti hringir.) meðferð einkamála, til þess að opna fyrir að enn á ný sé hægt að veita gjafsókn í málum sem hafa verulegt fordæmisgildi.