139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

reglugerð um gjafsókn.

128. mál
[16:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir þessu máli sem snertir gjafsókn og þakka jafnframt fyrir þau svör sem hæstv. ráðherra gaf hér sem munu leiða til þess að möguleikar fólks til að fá gjafsókn í erfiðum málum verði rýmkaðir. Þetta er mikilvægt, ekki síst á þeim tímum sem við nú göngum í gegnum. Margir hafa mjög lítil fjárráð og því er mikilvægt að við stöndum vörð um réttindi borgaranna þegar kemur að þessu máli.

Ég vil minna á að þetta er annað árið sem við framsóknarmenn ræðum þetta mál. Mér finnst við vera að ná mikilvægum áfanga með því að hæstv. dómsmálaráðherra lýsir sig reiðubúinn að rýmka þessar reglur gagnvart fólki sem hefur takmörkuð fjárráð. Þess vegna er fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur ánægjuleg og svarið líka.