139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

reglugerð um gjafsókn.

128. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hans og þær upplýsingar sem komu fram um að ætlunin væri að hækka tekjuviðmiðið upp í annars vegar 2 millj. og hins vegar 3 millj. og er það mjög gott. Ég vonast líka eftir, þar sem ráðherra nefndi í lok ræðu sinnar að hann ætlaði að koma aðeins inn á fordæmisgefandi mál, að hann svari því hvort hann taki undir mál sem samflokksmaður hans, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, flutti þar sem hún sagði, með leyfi forseta, í greinargerð með málinu:

„Með frumvarpinu er því lagt til að fella umrætt skilyrði aftur inn í ákvæðið. Sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu mun fela í sér að gjafsókn verður möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál er varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál er varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. 126. gr. verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.“

Mér finnst þetta alveg sérstaklega mikilvægt núna þegar stjórnvöld vísa einstaklingum til dómstóla með sín mál, mál sem varða þá fjármálagjörninga sem er þegar komið í ljós að voru ólöglegir. Við höfum fengið upplýsingar um það í viðskiptanefnd að enn eru talin vera um 40 mál sem varða einstaklinga þar sem á eftir að fá fordæmisgefandi dóma í. Neytendastofa hefur líka verið að vísa fólki til dómstóla til þess að leita réttar síns við að fá skaðabætur vegna hugsanlegra ólöglegra lánasamninga. (Forseti hringir.)

Mjög nauðsynlegt er að fá niðurstöðu í þessi mál svo við getum haldið áfram endurreisn samfélagsins, en við getum náttúrlega ekki gert þá kröfu að fólk sem er illa statt fjárhagslega sé sjálft (Forseti hringir.) að reyna að fjármagna þetta eða kannski lögfræðingar að vinna frítt, sem ekki eru miklar líkur á.