139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

reglugerð um gjafsókn.

128. mál
[16:52]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í samhengi við breytingar sem gerðar voru á lögum um gjafsókn árið 2005 og hv. þm. Eygló Harðardóttir vék að þá vil ég taka undir þau sjónarmið sem hún setti fram og jafnframt það sem fram kom í þingmáli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur á sínum tíma. Það er mikilvægt að taka aftur í lög ákvæði um gjafsókn í málum sem snúa að almannahag. Þar er um að ræða mál sem eru höfðuð á hendur ríkinu og geta t.d. varðað náttúruvernd og mannréttindi eins og hv. þingmaður vék að.

Þegar þetta ákvæði var tekið út úr lögum árið 2005 var það harðlega gagnrýnt af þáverandi stjórnarandstöðu. Mikilvægt er að þetta mál fái endurskoðun núna og við gerum breytingu á lögunum í þeim anda sem hv. þingmaður nefnir.