139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

sjálfbærar samgöngur.

68. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Samfélag þjóðanna er sér nú mun meðvitaðra en áður um að velflest í hegðun mannanna hefur áhrif á umhverfið og þar með lífsskilyrði og afkomumöguleika komandi kynslóða. Þess vegna skipa umhverfismálin í víðum skilningi æ veigameiri sess í allri þjóðfélagsumræðu og eins og kunnugt er hafa samgöngur mikil áhrif á umhverfið, bæði jákvæð og neikvæð. Í þéttbýli eru samgöngurnar oft helsta umhverfisógnin sem við er að etja og hefur sú þróun átt sér stað víða um heim.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú svo komið að neikvæð áhrif bílaumferðar eru eitt helsta umhverfisvandamál sveitarfélaganna og æ oftar mælist mengun í Reykjavík ofar hættumörkum. Það er reyndar ekki bara í Reykjavík, við höfum ítrekuð dæmi um að hið sama er upp á teningnum t.d. á Akureyri. Útblástur koldíoxíðs frá bílaumferð og svifryk sem m.a. stafar af notkun nagladekkja eru helstu orsakirnar fyrir þessu. Það er því mikilvægt að horfa á markmið og leiðir í samgöngumálum með gleraugum umhverfismálanna.

Greiðar, góðar og öruggar samgöngur eru að sjálfsögðu metnaður hvers samfélags. Um leið þarf að tryggja að samgöngurnar hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif. Alþjóðasamfélagið hefur einsett sér að takast á við þau með stefnumörkun um sjálfbæra þróun en sjálfbærar samgöngur fela í sér að samræma umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg markmið innan samgöngugeirans.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið í þessu efni líka. Meðal annars voru sett þau markmið að umhverfisáhrifum samgangna yrði haldið innan þess sem kallað var ásættanlegra marka en þá var miðað við að losun koldíoxíðs frá samgöngum árið 2010 yrði ekki meiri en árið 1990. Þetta er í samræmi við viðmiðunarreglur sem gilda annars staðar í Evrópu.

Það er ánægjulegt að geta þess að í nýlegri könnun sem gerð hefur verið á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2010 kemur fram að bættar almenningssamgöngur, minni umferð einkabíla og bættir hjóla- og göngustígar eru nú efst í huga fólks á höfuðborgarsvæðinu þegar það er spurt um hvaða úrbætur í samgöngumálum séu æskilegastar. Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2008 þegar flestir vildu flýta gerð Sundabrautar og bæta stofnbrautakerfið. Breikkun Suðurlandsvegar og jarðgöng á ýmsum stöðum eru efst á óskalistanum þegar Íslendingar eru spurðir um æskilegar samgönguframkvæmdir. Það hefur sem sagt orðið mikill viðsnúningur í þessu efni. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er talað um að vinna áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin. Ég hef því leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra svohljóðandi á þskj. 70:

Hvað líður vinnu við áætlun um sjálfbærar samgöngur sem boðað er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnin skuli í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn og stórefla almenningssamgöngur um land allt?