139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

sjálfbærar samgöngur.

68. mál
[16:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hann víkur að samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem lýtur að sjálfbærum samgöngum og vísaði í yfirlýsinguna. Þar segir m.a.:

„Unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.“

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur unnið að verkefninu, m.a. við undirbúning samgönguáætlunar 2009–2012 síðasta haust og nú við vinnu við gerð 12 ára samgönguáætlunar þar sem mun meiri áhersla en áður verður lögð á eflingu vistvænni ferðamáta, þ.e. almenningssamgöngur, göngu- og hjólreiðar. Ráðuneytið hefur nýlega rætt við landshlutasamtök sveitarfélaga, einstök sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila um núverandi fyrirkomulag almenningssamgangna til að kortleggja stöðuna og heyra hugmyndir þeirra um breytingar í málaflokknum. Gera verður skýran greinarmun á þörfum fyrir almenningssamgöngur í þéttbýli og dreifbýli. Annars vegar er um að ræða magnflutninga á fólki innan þéttbýlis þar sem hraði, tíðni og áreiðanleiki eru lykilatriði. Hins vegar er um að ræða grunnþjónustu á milli þéttbýliskjarna þar sem áreiðanleiki og aðlögun framboðs að eftirspurn vegur þyngra í úrbótum á þjónustu og aukinni hagkvæmni.

Undir ríkisstyrktar almenningssamgöngur eins og þeim er háttað í dag fellur ferjurekstur, áætlunarflug og sérleyfi á landinu. Notkun almenningssamgangna er lítil og má sem dæmi nefna að á 26 sérleiðum eru farþegar að jafnaði færri en þrír í hverri ferð og færri en einn á tíu leiðum. Þá er nýting á styrktum flug- og ferjuleiðum langt undir flutningsgetu. Hluti af vandanum er vegna skorts á samræmdu skipulagi, lítillar samhæfingar, takmarkaðs upplýsingaflæðis auk þess sem verð þjónustunnar er það hátt að einkabíll er iðulega vænlegri kostur í mörgum tilvikum.

Tillögur að úrbótum á almenningssamgöngum í landinu hafa það að markmið að bæta úr öllum þessum þáttum. Verulegar fjárhæðir renna til almenningssamgangna bæði frá sveitarfélögum og ríki. Frá ríkinu voru greiddar árið 2009 um 340 millj. kr. á ári til að reka sérleyfisþjónustu á landi. Heildarkostnaður ríkisins við málaflokkinn að meðtöldum kostnaði við ferjur og flug er rúmlega 1,3 milljarðar á ári. Stór hluti þess rennur til reksturs ferja.

Hugmyndir hafa komið fram um að gera breytingar á almenningssamgöngukerfi landsins og tillaga að stefnumótun í almenningssamgöngum var nýlega kynnt samgönguráði. Áhugi er fyrir því að breytingarnar verði þannig að hagkvæmni kerfisins verði sem mest fyrir notendur og hið opinbera. Tillaga að stefnumótun í almenningssamgöngum verður kynnt fyrir landshlutasamtökum sveitarfélaga og þróuð áfram í samstarfi við þau. Gera má ráð fyrir miklum breytingum gangi þessar hugmyndir eftir. Ljóst er að svo umfangsmiklar breytingar þarf að gera í þrepum og er því fyrirhugað að reka tilraunaverkefni í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga sem hægt yrði að nota til að afla reynslu og losna við helstu galla.

Undir sjálfbærar samgöngur falla einnig ganga og hjólreiðar. Samkvæmt lögum um samgönguáætlun skal við mótun hennar skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna. Í samgönguáætlun er sett fram áætlun um fjáröflun, útgjöld og helstu framkvæmdir í þessu grunnneti. Við undirbúning 12 ára samgönguáætlunar mun starfshópur gera fyrstu tillögu að grunnneti göngu- og hjólreiðastíga sem ætlað er að bera meginþunga umferðar þessa samgöngumáta. Þessi fyrsta tillaga verður grundvöllur umræðna, einn af útgangspunktum í mótun sjálfbærra samgönguáætlana sem vinna á með sveitarfélögunum á næstu missirum.

Ég stefni að því að leggja fyrir þingið nýja 12 ára samgönguáætlun á vorþingi en eins og áður sagði vinnur samgönguráð að mótun hennar í samræmi við þessa stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og þær áherslur sem ég hef nú kynnt.