139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

sjálfbærar samgöngur.

68. mál
[17:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og hlusta eftir þeim ábendingum og þeirri hvatningu sem komið hefur fram, bæði hvað varðar almannasamgöngur, leiðir til að efla þær, og sjálfbærar samgöngur sem svo eru nefndar. Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að mikilvægt er að huga að því sem hann kallaði lífsnauðsynlegar samgöngur og vísaði þá til byggðarlaga sem eiga allt sitt undir því að við höldum uppi félagslega reknu samgöngukerfi. Ég tek þessar athugasemdir og ábendingar og hvatningu til umhugsunar.