139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Reykjavíkurflugvöllur staðsettur í Vatnsmýri er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Mörg hundruð einstaklingar hafa með beinum eða óbeinum hætti atvinnu sína af starfseminni sem þar fer fram. Ef menn ætla sér að flytja þennan flugvöll er alveg ljóst að margir einstaklingar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu munu verða af þeirri atvinnu sem þeir hafa á þessum flugvelli í dag, sérstaklega ef flugvöllurinn verður færður eitthvert langt í burtu.

Að sama skapi skiptir Reykjavíkurflugvöllur gríðarlega miklu máli fyrir íbúa á landsbyggðinni og aðgengi íbúa að höfuðborg Íslands. Ef ríkisstjórninni er einhver alvara með það að skera niður heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sem allt virðist benda til, verður lega og staðsetning flugvallarins enn mikilvægari fyrir vikið. Það kemur því ekki til greina af minni hálfu að þessi flugvöllur verði lagður af eða færður. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að sú aðstaða sem þarna er, og er okkur öllum til skammar, verði bætt hið fyrsta með samgöngumiðstöð sem á að rísa.