139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra sagði að skiptar skoðanir eru um þetta mál í öllum stjórnmálaflokkum. Ég hef t.d., á vettvangi borgarstjórnar, tekið þátt í því að vinna að því að miðstöð innanlandsflugs yrði flutt úr Vatnsmýrinni og hef átt ágætt samstarf við fulltrúa í borgarstjórn úr öðrum stjórnmálaflokkum, m.a. Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, í því efni.

Ég er hins vegar líka þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt, bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og fyrir landsbyggðina, að miðstöð innanlandsflugs sé í Reykjavík. Það þýðir ekki í mínum huga að hún eigi endilega að vera í Vatnsmýrinni, (Gripið fram í.) þ.e. í miðborginni sjálfri. Það er ekki samasemmerki þar á milli í mínum huga.

Hitt er svo líka alveg rétt, sem hér hefur komið fram í þessari umræðu, að hér er auðvitað um stórt mál að ræða sem ekki eru teknar skyndiákvarðanir um. Það þarf að vera víðtæk samstaða um það hvernig miðstöð innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu er. Ég tel því að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra, miðað við það skipulag sem er í gildi í dag, að ekki sé endilega tímabært að ræða það í augnablikinu að flytja þessa miðstöð. Ég tel að þessari umræðu eigi engu að síður að halda lifandi.