139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að breyta þessu í þá átt að þetta sé gert á faglegum grunni en ekki með pólitískri aðkomu, og ég tek undir það að mikilvægi sjóðsins er gríðarlegt. En við þurfum líka að endurskoða AVS-sjóðinn eins og hann er í heildina vegna þess að það eru tvær deildir innan sjóðsins, annars vegar samkeppnisdeild og hins vegar almenn deild og á sama tíma og úthlutað hefur verið 100 milljónum úr samkeppnissjóðnum er búið að úthluta 530 milljónum úr almennu deildinni. Almenna deildin í sjóðnum er orðin ákveðin sjálftaka fyrir einstaka ríkisstofnanir sem ná þar í hundruð milljóna á hverju ári á meðan verið er að skera niður hjá mörgum öðrum og þær hafa sértekjur sem eru langt umfram þær heimildir sem eru í fjárlögum.

Ég vil að lokum segja og taka undir að það er gríðarlega mikilvægt að við tökum allt sem heitir pólitík úr úthlutunum úr þessum sjóðum og höfum það undir ströngu gæðaeftirliti.