139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra til að hlusta vel á það sem sagt hefur verið undir þessum fyrirspurnalið, því að það er eindregin hvatning til hæstv. ráðherra að taka til endurskoðunar AVS-sjóðinn. Af hverju gerum við það? Það er til þess að við getum sótt áfram fram á grundvelli gæða og gæðaviðmiðana. Þegar sótt er um í AVS er árangurshlutfall af umsóknum 50%. Þegar sótt er um í rannsóknasjóðinn er það innan við 10%. Samkeppnin um fjármagn innan rannsóknasjóðsins er miklu, miklu harðari og meiri kröfur þar en gerðar eru til AVS. Og ef ráðherra heldur að það að gera þingmann Vinstri grænna að formanni sjóðsins þýði að kominn sé faglegur stimpill á allar úthlutanir er það mikill misskilningur.

Mér finnst við hafa farið til baka um mörg ár í því hvernig menn nálgast núna í sjávarútvegsráðuneytinu allar úthlutanir sem tengjast þessum annars mikilvæga sjóði.

Ég hvet ráðherra til að sýna þetta frumkvæði því að ég heyri og ég reyni að greina að undir niðri vill hann veg sjávarútvegsins sem mestan. Ég skil það og styð hann í því. Það er hægt að hafa einn sjóð sem sérstaklega ýtir undir það en þá verðum við að gera það á grundvelli gæða, á grundvelli samkeppni, og stuðla að því að uppfylltar séu alþjóðlegar kröfur á þessu sviði. Því hvet ég hæstv. ráðherra til að sýna frumkvæði í þessu máli og leita til gæðaráðsins, sem heyrir núna undir menntamálaráðherra, um að þetta nýstofnaða ráð fari einfaldlega yfir úthlutanir AVS-sjóðsins eða að fá Vísinda- og tækniráð til að fara yfir allar úthlutanir sjóðsins og sjá hvaða leiðir eru mögulegar til að efla rannsóknir, vísindi og nýsköpun. Það verður ekki gert öðruvísi en að fara þvert yfir alla sjóði með það í huga að nýta fjármagnið sem best. AVS er þar engin undantekning.