139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get heils hugar tekið undir hvatningu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams til fjármálaráðuneytisins ef ég ekki misskildi hv. þingmann. Hér er stjórnarþingmaður að hvetja fjármálaráðherra og starfsmenn hans í að ganga frá máli sem er búið að vera skammarlega lengi til úrlausnar í því ráðuneyti. Þessi virðisaukaskattsmál eru búin að vera í 18 mánuði til úrlausnar í fjármálaráðuneytinu. Ég átti orðastað við hæstv. fjármálaráðherra 9. september og daginn eftir sagði hæstv. iðnaðarráðherra: Þetta er allt að reddast, þetta yrði klárað, mátti skilja, eftir helgi. Þetta hljómar dálítið eins og efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar á lausnum skuldavanda heimila, allt á þetta að gerast eftir helgi — og ekkert gerist.

Það er ekki skrýtið að hv. þm. Magnús Orri Schram ákalli fjármálaráðuneytið úr ræðustóli á Alþingi og biðji fjármálaráðuneytið og hæstv. fjármálaráðherra að klára þetta mál. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, gagnaveraaðilarnir eru búnir að koma til ráðuneytisins með tillögur að lausn sem á sér fyrirmyndir bæði í Bretlandi og Danmörku og á að geta verið einfalt mál, jafnvel þótt við séum ekki í Evrópusambandinu, að hrinda í framkvæmd hér vegna þess að þetta er spurningin um að taka ákvörðun, spurningin um að klára þessi mál.

Aðeins út af fundi hæstv. ríkisstjórnar í mínum heimabæ. Eins og aðrir Suðurnesjamenn er ég ákaflega ánægð yfir því að svo virðist sem barátta heimamanna á Suðurnesjum sé loksins farin að skila þeim árangri að ríkisstjórnin hafi áttað sig á því að þarna er vandi á höndum, að þarna sé óboðlegt atvinnuástand. Það sem ég vil líka taka sem jákvæðan hlut í þessu samhengi er að ríkisstjórninni voru kynnt öll þau fjölmörgu (Forseti hringir.) verkefni sem bíða í startholunum og þó að eitt og eitt herminjasafn fái að fljóta þar með geri ég ekki athugasemdir við það svo framarlega sem ríkisstjórnin komi sér nú að verki (Forseti hringir.) og klári þau verkefni sem eru tilbúin.