139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni kærlega fyrir þessa umræðu sem er virkilega þörf því að eldri borgararnir okkar eiga allt það besta skilið. Við ætlum ekki að fara að iðka þá stefnu hér eða þá vinnu að flytja eldri borgarana okkar yfir fjöll og sem allra minnst að ætlast til þess að þeir séu í þvingaðri sambúð. Nú þegar er hafin vinna í að finna lausn á þessum málaflokki, við vitum það, þar sem verið er að skera mjög bratt og mjög harkalega niður í heilbrigðismálum og öldrunarmálum á landsbyggðinni. Það er verið að skoða það.

Við erum í vanda stödd. Vextir eru að verða langstærsti útgjaldaliður ríkisins og þannig ætluðum við ekki að hafa það þannig að við ætlum okkur að reyna að halda okkur innan ramma fjárlaganna en það er sjálfsagt að endurskoða hvernig raðað er niður. Við megum ekki láta þetta bitna illilega á eldri borgurunum okkar.

Ég veit að nú er þegar hafin vinna fyrir austan, þar er farið að skoða alla möguleika. Við reynum að finna blönduð úrræði, nýta betur það sem fyrir er, jafnvel breyta í þjónustuíbúðir því rými sem þegar hefur verið hjúkrunarrými, en auðvitað verðum við alltaf að hafa rými fyrir veikasta aldraða fólkið. Það er vissulega dýrt en það skiptir auðvitað máli.

Eins og ég segi skiptir það máli og spurningin í þessari umræðu er: Hvert á þetta fólk að fara? Hvað kostar að flytja þetta fólk og erum við í raun og veru að spara? Mér finnst skipta mjög miklu máli að við ætlum ekki lengi að hafa vexti stærsta útgjaldalið ríkisins og vonandi finnum við leið til þess að taka höndum saman um lausnamiðaða vinnu til þess að hinir virðulegu eldri borgarar okkar hafi það sem allra best alls staðar á Íslandi.