139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna mjög þeim orðum hæstv. ráðherra að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að Landsvirkjun komi a.m.k. tímabundið að því að skaffa raforku til álversframkvæmda í Helguvík. Ég held að sú aðkoma Landsvirkjunar geti skipt sköpum til að það stóra, gríðarlega mikilvæga og langmikilvægasta einstaka fjárfestingarverkefni okkar Íslendinga nú um stundir fari af stað.

Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum HS Orku og Norðuráls á fundum okkar með þeim er málið komið í mjög góðan farveg samkomulags og sátta þar sem gerðardómsátökin eru vonandi að baki. Menn eru orðnir nokkuð bjartsýnir á að það rofi til og góðar fréttir berist á næstunni þannig að Norðurál geti farið af stað af fullum krafti, af því að það er búið að reisa kerskála og þarna eru tugir manna við störf, og menn geti farið að byggja fyrstu tvo áfangana á álverinu í Helguvík. Skipt getur sköpum að Landsvirkjun komi tímabundið að því svo að það gangi sem hraðast, sérstaklega á meðan Orkuveita Reykjavíkur lýkur fjármögnun síns þáttar í framkvæmdunum — orku sem hún mun framleiða á Hellisheiði og skaffa suður eftir í Helguvík upp á 90–100 megavött sem er um fjórðungur af raforkuþörf álversins fullbyggðs ef það verður þeir þrír áfangar sem um er rætt núna, 240 þús. tonn í stað fjögurra áfanga upp á 360 þús. tonn. Ég bind miklar vonir við þetta, er mun bjartsýnni eftir fundi okkar þingmanna með fulltrúum HS Orku og Norðuráls. Auðvitað byggist þetta allt á viðskiptalegum forsendum en aðkoma stjórnvalda getur á viðkvæmum augnablikum skipt sköpum. Þess vegna var sú pólitíska hvatning iðnaðarráðherra rétt áðan, að Landsvirkjun kæmi a.m.k. tímabundið að því að skaffa orku til álvers í Helguvík, mjög ánægjuleg. Ég hvet ráðherra eindregið til að fylgjast mjög vel með þessu og koma að þar sem þarf að brúa bil meðan verið er að (Forseti hringir.) fjármagna raforkuframleiðsluna að fullu.