139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarpið er komið fram og tel það mikilvægt framlag til að endurreisa íslenskt samfélag. Það má með sanni segja að við getum tekið undir orð hæstv. ráðherra þegar hún talaði um að álverið í Straumsvík væri traustur bakhjarl fyrir íslenskt samfélag, það hefur ekki bara verið bakhjarl fyrir okkur Hafnfirðinga heldur allt samfélagið.

Það er rammt að segja þegar við nýtum hóflega náttúruauðlindir okkar að við séum að ganga á framtíð Íslands. Það er síður en svo þannig. Við verðum að átta okkur á því að Írafossvirkjun, Ljósafossvirkjun og Búrfellsvirkjun eru allt saman virkjanir sem eru meira og minna afskrifaðar en þær mala gull fyrir okkur og framtíðarkynslóðir landsins. Þetta höfum við m.a. gert með því að fara í samstarf við öflug fyrirtæki eins og álverið í Straumsvík.

Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri væntanlega ísbrjótur fyrir önnur verkefni. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Í ljósi þeirra frétta sem við fengum í dag af atvinnumálum á Suðurnesjum ber að fagna að ríkisstjórnin sé að vakna, sérstaklega eftir að heimamenn hafa sýnt frumkvæði í þá veru að vekja ríkisstjórnina til atvinnusköpunar á Suðurnesjum. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Hvernig ætlar hún að beita ísbrjótunum til að önnur verkefni fari af stað? Það væri ágætt að fá dæmi um það og vonandi verður það eitthvað fleira en að koma upp útibúum fyrir umboðsmann skuldara eða herminjasafni á Suðurnesjunum. Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á áðan varðandi atvinnutækifærin tengd Helguvík. Er ekki rétt að byrja á því að beita ísbrjótunum á sjálfa samstarfsmenn hv. þingmanns innan ríkisstjórnarinnar? Er ekki best að byrja þar í staðinn fyrir að reyna að (Forseti hringir.) bögglast í gegnum þetta án þess að vera með neitt fast í hendi?