139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur ekki á okkur í stjórnarandstöðunni og það stendur ekki á okkur í Sjálfstæðisflokknum. Ég held hins vegar að hæstv. ráðherra verði að eiga þessa orðræðu við félaga sína við ríkisstjórnarborðið, sérstaklega þá sem koma frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Erlend fjárfesting hefur verið fæld frá landinu, því er verr og miður, hvort sem litið er til álversmála í Helguvík, gagnaversmála eða ef við lítum til ólíkra rekstrarforma í heilbrigðisrekstri. Við sjáum svart á hvítu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því miður leitt til þess að við höfum fælt erlenda fjárfestingu frá á þeim tímum sem við höfum hvað síst efni á því.

Ég tek undir að það þurfi að vera skýr pólitísk skilaboð þegar farið er af stað í svona fjárfestingarverkefni eins og með Landsvirkjun/Straumsvík. Ég saknaði þeirrar styrku pólitísku leiðsagnar af hálfu þáverandi bæjarstjórnar í Hafnarfirði þegar við Hafnfirðingar stóðum frammi fyrir því hvort styðja ætti stækkunina á álverinu í Straumsvík. Gott og vel, það er liðin saga. Þetta er rétt skref í áttina að auknum hagvexti.

Mér fannst hins vegar ekki koma nægilega skýrt fram hjá hæstv. ráðherra hvort hún vilji stuðla að atvinnuuppbyggingu í Helguvík í tengslum við álver. Ég vil fá það skýrt frá hæstv. ráðherra því að ég veit að hún er dugleg og ég veit að henni er annt um að koma á atvinnuuppbyggingu. Hún hefur talað þannig hér og víða annars staðar. Mér finnst helsta hindrunin, þar sem hún þarf virkilega að nota ísbrjótinn, vera samstarfsmenn hennar í samstarfsflokknum Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég vil fá ótvíræða yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra: Styður hún ekki eindregið atvinnuuppbyggingu Suðurnesjamanna hvort sem hún er á sviði einkasjúkrahúss, á sviði álversuppbyggingar, gagnaversuppbyggingar eða til að mynda með því að laða að erlent fjármagn með því að nota aðstöðuna á flugvellinum eins og t.d. varðandi ECA-verkefnið?