139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Vísbendingar um jákvæða hluti, ef ég heyrði rétt, eða vísbendingar um breytingar í atvinnumálum heyrum við mjög oft hér á Alþingi, að þetta sé allt að koma og allt að gerast. Innblásnar ræður eru haldnar af stjórnarliðum um að nú sé þetta alveg að koma, fjárfestingin sé að fara af stað, (Gripið fram í.) það sé verið að skapa atvinnu, þetta sé allt að koma og allt að gerast.

Ég vil taka fram, frú forseti, áður en ég held áfram með þessa ræðu að ég ætla líka að vera á jákvæðu nótunum svo að það sé alveg á hreinu. Mig langar að velta því upp, af því að við erum að tala um mikla fjárfestingu sem skapar mörg störf meðan á framkvæmdatímanum stendur, að þetta er fjárfesting sem búið er að bíða lengi eftir. Í rauninni fóru stjórnendur Alcans þessa leið vegna þess að þeim var synjað um að byggja við og fara í aðrar breytingar sem þeir vildu fara í á framleiðslu sinni og fyrirtækinu. Þeir ágætu stjórnendur hugsuðu því málið upp á nýtt og fóru þessa leið með þetta glæsilega fyrirtæki.

Við hljótum að hafa áhyggjur af því að ekki skuli vera meira að gerast. Það sem ég vil meina, sem var túlkað og sagt að væri fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, er að þarna sé einörð ákvörðun og afstaða stjórnenda þessa fyrirtækis að láta ekki deigan síga, bregðast við þeim vanda sem þeir stóðu frammi fyrir þegar þeir máttu ekki stækka verksmiðjuna með því að fara í innanhússbreytingar, ef ég má orða það þannig, sem kalla á aukna framleiðslu, störf á byggingartíma og vonandi um leið meiri gjaldeyri fyrir Ísland, sem er mjög jákvætt, … (Gripið fram í: Og varanleg störf.) og varanleg störf, að sjálfsögðu.

Það sem þessi framkvæmd gerir, frú forseti, er að tryggja fyrirtækið í rekstri og tryggja þau störf sem þar eru fyrir, það skiptir ekki síður máli. Ég fagna því mjög að þetta verði til þess að styrkja um leið atvinnu á höfuðborgarsvæðinu. Ég óska þess að við munum fljótlega sjá sama árangur varðandi atvinnuuppbyggingu á Bakka, suður með sjó og annars staðar þar sem unnið er að slíkum verkefnum. Það þarf að sjálfsögðu að hraða framkvæmdum við að afla orku, það er alveg ljóst. Uppi hafa verið alls konar kenningar um af hverju það gangi ekki eða gangi seint skulum við frekar orða það. Við vitum að erlendir bankar, sérstaklega í Evrópu, hafa dregið lappirnar út af þessu svokallaða Icesave-máli, það hefur komið fram. Það er algjörlega óþolandi að verið sé að nota slíkt mál til þess að kúga okkur, vil ég meina, og halda aftur af framþróun hér — væntanlega af hálfu þeirra Evrópusambandsríkja sem standa að þessu Icesave-samkomulagi, Breta og Hollendinga. Það er engin önnur ástæða fyrir þá að blanda þessu í málið.

Það eru 620 ársverk sem verða til á framkvæmdatíma, að því er fram kemur, og við Búðarhálsvirkjun, frú forseti, svo ég vitni beint, „að 600–700 ársverk skapist á byggingartíma“. Það er mjög mikilvægt að iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytið beiti sér fyrir því að farið verði af stað í framkvæmdir í orkumálum, eins og ég nefndi áðan. Því langar mig að nota þetta tækifæri — hæstv. ráðherra þarf ekki að svara því akkúrat nú — til að skoða hvernig við getum hraðað orkuvinnslunni, þ.e. hvernig við getum virkjað meira. Ég er ekki að tala um einstakar virkjanir eða neitt slíkt. Ég er að velta því fyrir mér hvort við séum ekki örugglega að skoða mjög vandlega verkefnafjármögnun og eitthvað þess háttar þannig að við þurfum ekki endalaust að láta undan eða semja út af þeim hótunum sem á okkur dynja.

Það er líka mjög sérstakt, frú forseti, að hinn stjórnarflokkurinn skuli ekki blanda sér í þessa umræðu því að þetta er mjög mikilvæg umræða um atvinnuuppbyggingu á landinu. Við hljótum að auglýsa eftir því hvað Vinstri grænum finnst um þessa framkvæmd og aðrar á þessum nótum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil þó mótmæla þeirri skoðun sem kom hér fram að það sé gjaldmiðillinn sem hafi staðið erlendri fjárfestingu fyrir þrifum. Við í iðnaðarnefnd höfum fengið bæði heimsóknir og upplýsingar um fjöldann allan af áhugaverðum aðilum sem hafa hug á að fjárfesta hér og ekki hefur staðið á blessuðum gjaldmiðlinum heldur allt öðrum hlutum sem margoft hafa komið fram.

Það er jákvætt og ánægjulegt að þetta sé að verða að veruleika. Ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að beita sér af hörku fyrir því að önnur verkefni sem eru uppi á borði líti dagsins ljós.