139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[15:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið til afgreiðslu þingsins og ég fagna þeirri stækkun og aukningu í framleiðslu sem verður í álverinu í Straumsvík, fyrirtæki sem hefur starfað um langa tíma með góðum árangri fyrir alla, land og þjóð og þá starfsmenn sem þar eru.

Það er oft fróðlegt að hlusta á gagnrýni andstæðinga orkufreks iðnaðar á Íslandi þegar þeir reyna að gera lítið úr álversiðnaðinum og snúa allri umræðu um orkufrekan iðnað og þann fjölbreytileika sem þar getur verið yfir í að ekki sé um annað að ræða en álver. Það er svo sannarlega, virðulegi forseti, mikil fjölbreytni þar á ferð. Það er mjög bagalegt þegar reynt er að drepa málum á dreif með því að gera áliðnaðinn að skítugum iðnaði, að einhverjum fyrirtækjum sem séu óheppileg í íslensku umhverfi eins mikilvæg og þau hafa verið fyrir uppbyggingu íslensks orkuiðnaðar og orkuframleiðslu og þann stóra þátt sem fyrirtækin eiga í því að íslensk heimili búa við lægsta orkuverð í heimi. Það er þessum fyrirtækjum fyrst og fremst að þakka. Búrfellsvirkjanir eru skuldlausar í dag, þær eru hrein eign þjóðarinnar og hafa verið borgaðar upp af orkusölu til álversins í Straumsvík.

Starfsánægja hjá fólki sem vinnur í áliðnaði er mjög mikil. Ég held að meðalstarfsaldur í álverinu í Straumsvík sé yfir 25 ár. Það segir sína sögu, virðulegi forseti, um hvað fólki líkar vel þar og hve gott það hefur það á þessum vinnustað. Meðaltekjur eru góðar, meðaltekjur í þessum iðnaði eru mun hærri en gengur og gerist í samfélaginu, verðmætasköpunin er gríðarlega mikil, fjölbreytni framleiðslunnar í Straumsvík er mjög mikil og nú á enn að auka á þá flóru. Mikið er hugsað um umhverfismál og hefur náðst gríðarlegur árangur í öllum umhverfismálum hjá fyrirtækinu sem og öðrum fyrirtækjum sem starfa í þessari grein á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á öll heilbrigðis- og öryggismál starfsmanna, þau eru algjörlega til fyrirmyndar. Þess vegna er mjög bagalegt þegar andstæðingar orkufreks iðnaðar reyna alltaf að tala hann niður í skítinn, þennan mikilvæga iðnað fyrir íslenskt samfélag.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð komu hér andstæðingar orkufreks iðnaðar, reiknimeistarar þeirra, fram og sögðu okkur ítrekað að þessi framkvæmd mundi aldrei borga sig, Kárahnjúkavirkjun yrði myllusteinn um háls þjóðarinnar, yrði til þess að orkuverð á heimili og fyrirtæki í landinu mundi snarhækka. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tilkynnti nú fyrir skömmu að ef Landsvirkjun mundi ekki fara í frekari framkvæmdir næstu tíu árin, ekki greiða arð á þessum tíu árum til eiganda síns, ríkisins, yrði Landsvirkjun skuldlaust félag eftir tíu ár — skuldlaust félag, virðulegi forseti, — og eftir það gæti það greitt arð til ríkissjóðs sem næmi 25 milljörðum á ári eða helmingi af rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þetta eru staðreyndir málsins og ég held að fólk ætti að horfa til þessa, sérstaklega andstæðingar orkufreks iðnaðar, andstæðingar þess að við virkjum frekar náttúruauðlindir í landinu til heilla fyrir þjóð.

Það er ánægjulegt að sjá að það eru þessi fyrirtæki sem sumir hafa haldið fram að mundu hlaupast undan merkjum í íslensku atvinnulífi ef á bátinn gæfi og það hefur gefið á bátinn hjá þessum fyrirtækjum með hótunum um breytt skattumhverfi og brot á samningum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma blása þessi fyrirtæki til sóknar í íslensku atvinnulífi. Þetta eru einu merkin um að blásið sé til sóknar í íslensku atvinnulífi. Það er ekki núverandi ríkisstjórn að þakka, virðulegi forseti, alls ekki. Hvernig var það með fyrstu skóflustunguna að stækkun verksmiðjunnar á Reyðarfirði í síðustu viku, framkvæmdir upp á marga milljarða, hvernig var með þá framkvæmd? (Gripið fram í.) Enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar var þar og það var hlálegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma í fjölmiðla og þakka sér þá stækkun. Mér er skapi næst að halda að þeim hafi ekki verið boðið, þeir hafi ekki verið látnir vita af þessum framkvæmdum til þess að þeir í þvældust ekki fyrir. Þessu var haldið leyndu fyrir hæstv. ríkisstjórn, ég held að það hafi verið mergurinn málsins.

Fjárfestingar komi aftur til Íslands og hér sé að verða eitt besta fjárfestingarumhverfi fyrir erlenda fjárfestingu, sagði hæstv. iðnaðarráðherra áðan í ræðustól. (Iðnrh.: Ég sagði ekki besta.) Fyrirgefið, ekki besta? (Iðnrh.: Ég sagði bara að hér væri orðið gott að fjárfesta.) Já, hér væri orðið gott að fjárfesta, hér stæði allt umhverfi til mikilla bóta gagnvart erlendri fjárfestingu sem væri grundvöllurinn að því að við næðum vopnum okkar aftur og hún yrði að veruleika.

Það er alveg magnað að hlusta á hæstv. iðnaðarráðherra og manni er næst að halda að hún sé ekki í tengslum við ríkisstjórnina og sjái ekki hvað er í gangi. Eða hvernig talaði þessi ríkisstjórn á fundi á Suðurnesjum í morgun þar sem verið var að ræða það mikla atvinnuleysi sem þar er, það gríðarmikla atvinnuleysi? Eina marktæka niðurstaðan af þeim fundi sem komið hefur fram í fjölmiðlum er að það á að opna þar herminjasafn. Ég vil óska herstöðvarandstæðingnum, hæstv. dómsmálaráðherra, alveg sérstaklega til hamingju með að opna herminjasafn á Suðurnesjum. Það verður mikil framlegð af þeirri framkvæmd. Hann ætlar sér kannski að verða safnstjóri í framtíðinni. Þetta er á sama tíma, virðulegi forseti, og verið er að skera niður í fjárlögum fyrir næsta ár allt fé til safna í landinu og alla safnastarfsemi. Þá kemur hæstv. ríkisstjórn fram með svona geggjaða hugmynd. Menn eru auðvitað að gera grín að þjóðinni, virðulegi forseti, þegar þeir haga sér svona.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra segir að hér sé að verða gott umhverfi fyrir erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi virðist hún ekki hafa fylgst með hvaða skilaboð koma stöðugt frá ríkisstjórnarborðinu til mögulegra erlendra fjárfesta. Eða er Magma-málið fallið til þess að laða erlenda fjárfesta til landsins? Hvað með skattamálið gagnvart gagnaverunum sem við fórum yfir áðan þar sem allt er í frosti, ekki verið að hefja framkvæmdir, ekki verið að efla starfsemina, samningar við viðskiptavini eru á borðinu og fjárfestar hanga enn um borð í skipinu, eins og það var orðað á fundi iðnaðarnefndar í morgun, þrátt fyrir að ríkisstjórnin standi í veginum? Ríkisstjórnin gengur ekki alla leið samkvæmt síðustu skilaboðum, hún er ekki að búa til það samkeppnisumhverfi fyrir þennan iðnað að hann geti þrifist hér. Samt sem áður var þetta hin helsta nýlunda sl. vetur í atvinnusköpun á Íslandi sem ríkisstjórnin horfir til. Það hefur legið fyrir í 18 mánuði hvernig umhverfi þessara fyrirtækja þarf að vera en málið er enn strand hjá ríkisstjórninni. Hvernig er með ECA-verkefnið, það þarfa verkefni um að reka viðhaldsstöð á Keflavíkurflugvelli og skaffa yfir 100 flugvirkjum vinnu auk fjölda annarra tæknimanna og skrifstofufólks? Það verða vel á annað hundrað störf sem verða til af því, mikil velta og mikil fjárfesting verður á Keflavíkurflugvelli í kringum verkefnið. Nei, það er stopp hjá ríkisstjórninni. Það var aumlegt að hlusta á hæstv. samgönguráðherra Ögmund Jónasson í viðtali við sjónvarpið í síðustu viku þar sem hann svaraði algjörlega út í hött þegar hann var spurður að því hvort hann væri fylgjandi eða mótfallinn verkefninu. Hann sagði að það væri verið að endurskipuleggja í ráðuneytinu með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Þegar spurningin var ítrekuð: Ertu fylgjandi eða andvígur? Ja, við erum að fara yfir málin í ráðuneytinu, við erum að endurskipuleggja og forgangsraða í þágu Íslands. Þetta voru svörin sem voru gefin.

Það er hægt að tala upp fjárfestingu í heilbrigðisþjónustu. Það voru mikil áform um að taka eitt fullkomnasta og nýjasta sjúkrahús landsins sem er á Suðurnesjum og byggja þar upp heilbrigðisþjónustu sem mundi fá til sín erlenda sjúklinga sem kæmu hingað í aðgerðir. Þetta hefði orðið mikil efling fyrir heilbrigðisstéttirnar og heilbrigðisstarfsemi í landinu fyrir utan að vera gjaldeyris- og verðmætaskapandi atvinna. Þetta var stoppað og er í bremsu hjá ríkisstjórninni.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra kemur í ræðustól og segir: Þessi ríkisstjórn ætlar að laða að erlenda fjárfestingu, allt umhverfi hér er að verða mjög gott — þá er eins og hún sé ekki í sambandi. Ég veit ekki annað en að gerð hafi verið skýrsla hjá Fjárfestingarstofu um samkeppnishæfi Íslands á þessum vettvangi, skýrsla sem kom út nýlega. Þessi skýrsla var unnin af virtu hollensku endurskoðunarfyrirtæki og gerði samanburðarathugun á Íslandi, Svíþjóð, Möltu og ákveðnum svæðum í Belgíu. Þessi skýrsla gefur algjöra falleinkunn fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Rauði þráðurinn í gagnrýninni, þar sem við stóðum langverst að vígi, var pólitísk óvissa, að hér væri engin stefnumörkun, hér gætu erlendir fjárfestar ekki treyst því umhverfi sem væri til staðar og það væri eitt það versta sem hægt væri að hafa í farteskinu þegar verið væri að laða að erlenda fjárfesta. Annað var að við værum með löggjöf í umhverfismálum sem við værum ekki búin að forvinna til samanburðar við fyrrgreindar þjóðir þannig að greið leið væri fyrir atvinnustarfsemi inn í landið. Þetta var falleinkunn.

Á sama tíma kemur hæstv. iðnaðarráðherra, sem nákvæmlega þetta heyrir undir. Ég spyr: Hefur hún kynnt sér þessa skýrslu? Hefur hún lesið skýrsluna? Síðan í ofanálag, virðulegi forseti, koma fullyrðingar, sérstaklega vinstri grænna, um að það sé engin orka í landinu, það sé ekkert hægt tala um orkufrekan iðnað, það sé ekkert hægt að byggja upp í Helguvík, það sé ekkert hægt að byggja upp á Bakka við Húsavík — þessi mikilvægu skref sem við þurfum að stíga — það sé bara ekki hægt vegna þess að engin orka sé til í landinu. Hvaðan kemur þetta fólk og þessir falsspámenn? Þetta er ódrengilegt, virðulegi forseti, þetta er ódrengilegt gagnvart þjóðinni. Þetta er falsspámennska. Svona eiga stjórnmálamenn ekki að tala. Þeir eiga að halda sig við staðreyndir vegna þess að auðvitað er næg orka í landinu, auðvitað eru hér einhverjir áhugaverðustu virkjanamöguleikar í heiminum. Forustumenn margra þjóða úti um allan heim horfa hingað öfundaraugum á þá möguleika sem við eigum.

Það er núverandi ríkisstjórn sem situr á sér og heldur öllu í járngreipum. Það eru reyndar bara örfáir þingmenn og hæstv. ráðherrar vinstri stjórnarinnar úr Vinstri grænum sem halda þessu í heljargreipum. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. iðnaðarráðherra hefur allt aðrar hugmyndir. Ef ég sæti með henni í ríkisstjórn væru málin með allt öðrum hætti. Þá værum við að vinna þetta af heilindum en ekki í þessum hráskinnaleik sem þjóðin verður vitni að og erlendir fjárfestar í hverri viku. Þetta gengur ekki lengur, virðulegi forseti. Þessu verður að breyta ef þjóðin á að ná vopnum sínum og ná þeim lífsgæðum sem við viljum stefna að.

Á sama tíma fagna ég þessum áfanga, hann er gríðarlega mikilvægur. Ég fagna því að þarna verður öflug framleiðsla, þarna skapast fjölmörg störf á uppbyggingartíma og til framtíðar og miklu verðmætari framleiðsla á útflutningsverðmætum sem við þurfum svo mjög á að halda. Ég óska öllum til hamingju með það.