139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[15:19]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi koma inn á. Í fyrsta lagi heldur hann hér mikla stuðningsræðu með einni grein í landinu, áliðnaðinum. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði þar en þegar hann gerir það á kostnað annarra greina get ég ekki setið undir því. Hv. þingmaður segir að eina greinin sem blásið hafi til sóknar sé áliðnaðurinn og tók tvö dæmi þar um. Það er alls ekki rétt. Hv. þingmaður lokar augunum fyrir því mikla starfi sem verið er að vinna um allt samfélag af þúsundum vinnandi handa þar sem til að mynda hafa verið sköpuð yfir á annað hundrað nýrra fyrirtækja síðastliðin tvö ár í tengslum við frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar. Það hefur verið fjölgað um hundruð manna í störfum í tölvuleikjaiðnaðinum og í hverjum einasta mánuði er að fjölga verulega störfum á sviði umhverfis- og orkutækni. Þetta veit hv. þingmaður.

En í staðinn fyrir að vinna með okkur að því að byggja enn frekar undir þetta, og þetta er líka vegna þess að ríkisstjórnin hefur skapað umhverfi fyrir þessi fyrirtæki til að vaxa, kýs hv. þingmaður að loka augunum fyrir þessum staðreyndum og gera þar með lítið úr störfum þessa fólks.

Mér blöskrar líka þegar hv. þingmaður lokar augunum fyrir því sem er að gerast í ferðaþjónustunni. Þar eru góðir hlutir að gerast. Hv. þingmaður hampaði áliðnaðinum, og ég get tekið undir margt af því sem hann sagði, en ég bið hann um leið að gera það ekki á kostnað annarra. Þarna eru margir að leggja mikla vinnu í uppbyggingu samfélagsins.