139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stuðningsræða mín við áliðnaðinn á kostnað annarra greina? (Gripið fram í.) Ég veit ekki annað en ég hafi rætt hér um fjölmörg önnur verkefni og ég var fyrst og fremst að tala um erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Ég er ekki að gera lítið úr því mikla starfi sem fjölmörg fyrirtæki vinna hér og fjölmargar hendur vinna. Ég fagna því að sjálfsögðu. En atvinnuleysi segir sína sögu. Það er ekki nóg. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, sem þar er gert.

Ég er ekki að fagna þessari erlendu fjárfestingu á kostnað annarra greina. Ég skal hampa öðrum þeim greinum. Ég taldi hér upp fjölmörg önnur verkefni sem eru á borði hæstv. ríkisstjórnar, eins og ECA-verkefnið, eins og Magma-málið, eins og sjúkrahúsmálið og hægt er að telja upp endalaust. Þetta eru verkefni sem við erum að tala fyrir, margt af þessu, og gagnaverið. Þetta eru fyrirtæki sem við erum að tala fyrir og erum að tala um hafa hér sem mesta fjölbreytni í orkufrekum iðnaði. Það er það sem við viljum, sjálfstæðismenn. Við viljum nýta auðlindirnar til þess.

Ég fagna því sem er verið að gera vel í öðrum atvinnugreinum innan lands. En það er skelfilegt að horfa til þess hvernig þessi ríkisstjórn er samt að fara með aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Hann er á þessum tíma í algerri tilvistarkreppu, veit ekkert hvert stefnir, veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Hæstv. sjávarútvegsráðherra setti á fót sáttanefnd og lofaði þjóðinni, sjómönnum, smábátasjómönnum og öðrum sem í þessari grein starfa, því að farin yrði sáttaleið við greinina. Blekið er ekki þornað á þeim samningi þegar hann er farinn að brjóta það og setja allt í uppnám. Það er engin fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi í dag. Það er ekkert að gerast þar, virðulegi forseti. Þar væri hægt að kveikja í (Forseti hringir.) þúsund störfum með því að segja það eitt að farin verði sú sáttaleið sem samkomulag náðist um og (Forseti hringir.) þannig að byggja upp. Þá færi fjárfestingin af stað á þeim vettvangi líka.