139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Meginmarkmið frumvarpsins eru þríþætt:

1. Að breyta ákvæðum laganna er varða fjarskiptaáætlun með það að markmiði að samræma áætlanagerð innan ráðuneytisins, sem og við aðra áætlanagerð hins opinbera.

2. Að breyta reglum um stjórnun og úthlutun tíðna, sem ætlað er að auka hagkvæmni og skilvirkni í stjórnun þessara gæða. Var þess gætt að samræmi væri við fjarskiptaregluverk Evrópusambandsins, þar með talið nýja breytingartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins.

3. Að einfalda stjórnsýslu og koma í veg fyrir réttaróvissu auk þess sem kveðið er á um nýmæli í þágu almannahagsmuna.

Með lögum nr. 78/2005, um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, var í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna í fjarskiptamálum fyrir Ísland þar sem kveðið var á um gerð fjarskiptaáætlunar. Ákvað samgönguráðherra gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 og hafði hún að geyma mörg og metnaðarfull markmið og verkefnaáætlun sem hafa sett mikinn svip á þróun og þjónustu á sviði fjarskipta til allra landshluta. Sérstök áhersla var lögð á það í fjarskiptaáætlun að bæta fjarskipti á þeim stöðum á landinu þar sem úrbóta var mest þörf, þar á meðal var kveðið á um að öryggi vegfarenda yrði bætt með aukinni farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum og að allir landsmenn sem þess óskuðu gætu tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Þá ber Póst- og fjarskiptastofnun að stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda sem birtist í fjarskiptaáætlun.

Meginmarkmið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru annars vegar að víkka út gildissvið fjarskiptaáætlunar en hins vegar að samræma áætlunargerðina og aðra áætlunargerð innan ráðuneytisins sem og samræma hana almennt áætlunargerð íslenskra stjórnvalda. Má þar helst nefna að forsætisráðherra lagði á síðasta þingi fram tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, og vísa ég þar í þskj. 476, 332. mál, sem fól í sér að útbúin yrði samræmd áætlun til nýrrar sóknar í íslensku atvinnulífi. Auk þess verði nokkrar áætlanir samþættar, þar á meðal samgönguáætlun, samskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlun í ferðamálum og áætlun um stækkun sveitarfélaga. Í sóknaráætlun felst m.a. samþætting áætlana sem varða m.a. atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæða byggðaþróun.

Í samræmi við framangreindar breytingar er hér gert ráð fyrir að í stað fjarskiptaáætlunar taki við svonefnd samskiptaáætlun, sem auk fjarskipta nái í ríkari mæli til rafrænna samskipta auk þess sem heimilt sé að líta til annarra samskiptaleiða, svo sem póstsamskipta. Efnistökum samskiptaáætlunar er þannig ætlað að vera víðtækari en fjarskiptaáætlunar þar sem samskiptaáætlun veiti heildstætt yfirlit yfir mismunandi samskiptaleiðir á Íslandi og samspil þeirra, auk þess sem samskiptaáætlun taki mið af markmiðum sóknaráætlunar.

Til stendur að tillaga að þingsályktun til samskiptaáætlunar verði lögð fram nú á vorþingi.

Þá vík ég að öðrum þættinum sem ég gat um í upphafi, breyttum reglum um stjórnun og úthlutun tíðna.

Fyrir liggur að nokkrar stórar tíðniheimildir renna út á þessu ári og því næsta og þótti því við hæfi að fara yfir gildandi reglur, ákveða gjald fyrir endurnýjuð leyfi auk þess sem hagsmunaaðilar hafa gagnrýnt að núverandi regluverk sé ógagnsætt og ófyrirsjáanlegt. Þá hefur frumvarpið að geyma bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að heimilt sé að taka gjald fyrir endurúthlutun tíðna. Lagt er til að fjárhæðin taki mið af því gjaldi sem innheimt var við fyrri úthlutun tíðnanna uppfært til verðlags dagsins í dag.

Í fjarskiptatíðnum felst takmörkuð auðlind sem talsverð fjárhagsleg verðmæti eru bundin við, líkt og fram kemur í álitsgerð auðlindanefndar um stjórn auðlinda Íslands frá árinu 2000. Tíðnir eru notaðar af öllum og þær eru grundvallarforsenda ýmissar þjónustu. Án varfærinnar skipulagningar og stjórnunar geta skaðlegar truflanir haft afar slæm áhrif á tíðni sem grundvöll samskiptamiðla og eru tíðnir af þeim sökum háðar tíðnileyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Fjarskiptafyrirtæki sem nota tíðnir og númer vegna starfsemi sinnar geta sótt um réttindi til slíkrar notkunar og er það Póst- og fjarskiptastofnun sem úthlutar réttindum til einstakra fyrirtækja og setur skilyrði fyrir slíkri notkun. Það skiptir sköpum að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt.

Við setningu fjarskiptalaga, nr. 81/2003, var gert ráð fyrir heimild ráðherra til þess að útfæra reglur IV. kafla fjarskiptalaganna í reglugerð og kveða nánar á um skipulagningu og úthlutun tíðna, jafnt til fjarskiptafyrirtækja sem notenda, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna, og þótti nánari útfærsla á reglum um skipulag og úthlutun tíðna til þess fallin að auka gæði stjórnsýslu á þessu sviði. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur því verið unnið að gerð reglugerðar um skipulag og úthlutun tíðna. Af því tilefni hefur IV. kafli fjarskiptalaganna um úthlutun tíðna og númera jafnframt verið tekinn til skoðunar og eru nú uppfærð nokkur ákvæði kaflans.

Fyrir liggur að þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á fjarskiptaregluverki Evrópusambandsins sem hin íslensku fjarskiptalög byggjast að miklu leyti á. Þær breytingar sem lagðar eru til rúmast innan núgildandi regluverks og eru jafnframt í samræmi við breytingar þær sem fyrir liggja.

Í fjarskiptatíðnum felst takmörkuð auðlind, sem áður segir, sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna bæði gagnvart almenningi og markaðsaðilum. Það er talið þjóna hagsmunum almennings að umsýsla með tíðnir sé eins skilvirk og mögulegt er og því er lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun.

Æskilegt er að auka sveigjanleika með því að binda tíðniheimildir ekki við ákveðna þjónustu eða tækni umfram það sem nauðsynlegt er í samræmi við meginreglur um tækni- og þjónustuhlutleysi. Æskilegra er að notendur tíðna ákveði sjálfir hver séu bestu notin fyrir þau tíðnisvið sem eru laus til afnota. Þó er talið að almannahagsmunir geti í ákveðnum tilfellum réttlætt að tíðniréttindi séu bundin við ákveðna tækni og þjónustu, en slíkar ákvarðanir beri að taka til endurskoðunar með reglulegu millibili.

Til að auka skilvirkni og sveigjanleika þurfi fjarskiptaeftirlitsstofnanir að hafa þann möguleika að heimila framsal eða leigu á tíðniréttindum. Gæta þarf að því að framsal skekki ekki samkeppnisstöðu, t.d. ef ráðandi markaðsaðilar kaupa tíðnir til þess eins að halda öðrum frá markaðnum. Hefur framsal á fjarskiptatíðnum lengi tíðkast meðal nágrannaríkja okkar og er það stefna Evrópusambandsins að meginreglan verði á endanum sú að framsal sé heimilt, en sem áður segir sækjum við okkar lög að verulegu leyti til laga og reglugerða Evrópusambandsins. Er því hér búið í haginn fyrir þær breytingar sem koma skulu svo að undirbúningur geti hafist að því að opna fyrir framsal á fjarskiptatíðnum.

Til þess að hindra ekki eðlilegan aðgang að tíðniheimildum þurfa réttindi sem ekki eru framseljanleg að vera tímabundin. Ef ákvæði eru í réttindum um mögulega framlengingu þeirra eða endurnýjun ættu eftirlitsstofnanir að efna til samráðs áður en ákvörðun er tekin um framlengingu. Einnig þarf að skoða reglulega gildandi tíðniheimildir og meta hvort þörf er á breytingum til að auka sveigjanleika og aðgengi að tíðnum. Enn fremur ættu eftirlitsstofnanir að geta gripið inn í ef tíðniheimildir eru ekki notaðar og komið í veg fyrir að fyrirtæki sitji á tíðnum til þess eins að hindra samkeppni, eins og áður er vikið að.

Kem ég þá að þriðja og síðasta liðnum sem lýtur að stjórnsýslunni, að einfalda hana og koma í veg fyrir réttaróvissu.

Hér eru lagðar til breytingar á tæknikafla laganna. Annars vegar er lagt til að settur verði á fót gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað. Mun slíkur gagnagrunnur koma að gagni við að kortleggja fjarskiptainnviði landsins og þar með nýtast við stefnumótun á sviði fjarskipta, auk þess sem hann auðveldar eftirlit, bæði almennt séð varðandi útbreiðslu og í einstökum tilfellum, til að mynda vegna truflana. Þá verður almenningi gert kleift með gagnagrunninum að kalla eftir upplýsingum um staðsetningu senda með tilliti til umhverfissjónarmiða, en víða erlendis þekkist að almenningur hafi aðgang að slíkum gagnagrunni. Hins vegar er lagt til það nýmæli, að beiðni Fangelsismálastofnunar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, að fangelsisyfirvöldum sé gert kleift að trufla fjarskipti innan sérstaklega afmarkaðra svæða, og þá erum við að sjálfsögðu að tala um fangelsi, vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu, en þótt hefur vandasamt að koma í veg fyrir fjarskipti innan veggja fangelsa með öðrum hætti.

Í kaflanum eru lagðar til breytingar varðandi þráðlausan sendibúnað. Hingað til hefur þurft leyfi, útgefið af Póst- og fjarskiptastofnun, til starfrækslu slíks búnaðar. Í ákveðnum tilfellum væri til mikilla bóta að einfalda fyrirkomulagið og kveða á um tilkynningarskyldu. Sem dæmi má nefna talstöðvaleyfi til leigubílstjóra.

Þá er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun taki við skyldum frá Brunamálastofnun varðandi skaðlegar truflanir frá rafföngum á fjarskiptavirki og stofnunin fái til þess viðhlítandi valdheimildir, en þær skortir nú, sbr. 4. mgr. 71. gr. fjarskiptalaga. Ríkt hefur nokkur réttaróvissa í tilfellum þar sem skaðlegar truflanir hafa stafað frá rafföngum, t.d. rafmagnsgirðingum, og verður ekki talið eðlilegt að sú skylda hvíli á fjarskiptafyrirtækjum að aðhafast vegna slíkra truflana.

Hæstv. forseti. Ég vil leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.