139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og geri engar athugasemdir við það að hann komi með upplýsingar um umsagnaraðila til nefndarinnar í fyrramálið. Það er ágætt að það sé gert þannig að maður átti sig á því hvort það sé einhver áherslumunur eða hvort það séu einhverjar stórar athugasemdir sem umsagnaraðilar gera við þetta nýja frumvarp.

Það sem ég var kannski að fiska eftir í seinna svari mínu, og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það, var reyndar í tímaþröng, þess vegna vil ég aðeins ítreka það, var það hvort hugsanlegt væri að nýta þennan nýja skattstofn. Ég er í sjálfu sér ekki að gera athugasemdir við að þetta sé fært upp til verðlags miðað við þær breytingar sem hafa orðið á verðlagi. Það er mikil þörf fyrir það að byggja enn frekar upp sérstaklega internetið og háhraðatengingarnar úti um landsbyggðina. Þar situr fólk ekki við sama borð og margir aðrir hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem notendahópurinn er miklu stærri. Og þetta í sjálfu sér háir mörgum hlutum landsbyggðarinnar í uppbyggingu hvað varðar atvinnumál og annað. Fólk gæti hugsanlega skapað sér störf ef það hefði betri aðstöðu til að sinna því með þeim tengingum sem krafa er gerð um.

Fyrir utan það er þetta líka mjög dýrt fyrir marga og þegar hraðinn er svo lítill að menn þurfa að vera við verk klukkutímum saman sem tekur jafnvel nokkrar mínútur þar sem ástandið er betra og hraðinn meiri. Ég vildi fiska eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hann gæti hugsað sér að nýta þessa auknu skattheimtu eða hækkun á verðgildi, hvernig svo sem það er orðað, til að styrkja þessi veiku svæði sem klárlega vantar þetta í heild sinni. Ég ætlast kannski ekki til þess að hæstv. ráðherra svari þessu beint en ég bið hann alla vega að íhuga þetta mjög alvarlega.