139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[15:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna. Ég ætla að gera hér grein fyrir því hvernig þessar tillögur snerta ríkissjóð og hvernig þær snerta atvinnusköpun í landinu.

Við leggjum til gríðarlega miklar breytingar á því hvernig hugað er að skattlagningu. Við leggjum til að tekjuskattar einstaklinga verði lækkaðir um 10 milljarða á næsta ári. Við leggjum til að óhagkvæmir skattar sem lagðir voru á, sérstaklega í fyrra, verði afnumdir — 10 milljarðar þar. Við leggjum til að horfið verði frá þeim 11 milljörðum sem ríkisstjórnin áformaði að leggja á heimili og fyrirtæki á næsta ári. Það er ljóst að gríðarlega mikill kostnaður fylgir þessu, 31 milljarður nánar tiltekið.

Í greinargerð sem fylgir tillögum okkar er jafnframt farið yfir að auðvitað þurfi að spara og skera niður hjá hinu opinbera. En við tölum sérstaklega um að hlífa beri menntakerfinu vegna þess að menntun er fjárfesting til framtíðar og meiri menntun er grunnurinn að hagvexti framtíðarinnar. Það mun kosta eitthvað að snúa ofan af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og ég reikna með 3 milljörðum í dæmaskyni.

Þá erum við komin upp undir 34 milljarða í það sem tillögurnar kosta. Nú gæti e.t.v. einhver spurt: Hvernig í ósköpunum á að fara að því að fjármagna þetta? Viljum við hverfa til baka með þann niðurskurð og þann sparnað sem ríkisstjórnin sparar? Við því er einfalt svar: Nei, það þarf að taka til í rekstri hins opinbera vegna þess að fram undan eru ár þar sem ekki mun verða borð fyrir báru þegar kemur að ríkisútgjöldum. Það þarf að spara og það þarf að stokka upp. Við förum yfir það í löngu máli í greinargerð okkar.

En hvernig ætlum við þá að fjármagna þetta? Jú, við bendum á nokkrar leiðir til þess.

Tillögurnar sem snúa að fyrirtækjunum og atvinnulífinu snúast fyrst og fremst um að skapa þannig umhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að til verði fjöldi starfa á næsta ári. Jafnframt viljum við að farið verði út í verkefni sem byggja á þeim miklu yfirburðum sem við höfum í orkumálum og að hér verði farið í stóriðjuverkefni á Bakka við Húsavík og í Helguvík.

Við áætlum að störf sem skapast í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, miðað við tillögur okkar, verði í kringum 8.000 á næsta ári. Það eru bæði bein og afleidd störf. Jafnframt gerum við ráð fyrir því að störf við uppbyggingu í orku- og stóriðjugeiranum geti orðið allt að 4.000 á næsta ári, þ.e. hér verði til 12.000 ný störf á næsta ári og 10.000 á árinu 2012.

Hvað skyldi þetta gera fyrir ríkissjóð? Þannig er mál með vexti að hvert starf, þegar einstaklingur fer af atvinnuleysisbótum út á vinnumarkaðinn, bætir stöðu ríkissjóðs um að meðaltali 3 millj. kr. Það gerist með auknum skatttekjum og minni bótum sem þarf að greiða þeim einstaklingi. Það er því til mikils að vinna ef við náum að skapa eitt starf, 3 milljónir á hvert starf.

Síðan er einfaldur reikningur. Maður margfaldar 3 milljónir með 12.000 og fær út 36 milljarða. Gert er ráð fyrir að 12.000 ný störf sem verða til í kjölfar aðgerðanna sem við leggjum til skapi ríkissjóði 36 milljarða í bætta afkomu. Lægri útgjöld og meiri tekjur.

Þetta er það sem við höfum kosið að kalla í daglegu tali að breikka skattstofnana. Til eru þrjár leiðir til að vinna sig út úr kreppu. Réttara sagt þrjár leiðir til að vinna á halla ríkissjóðs. Númer eitt er að skera niður útgjöld, númer tvö er að hækka tekjurnar og þá með skattahækkunum en númer þrjú — og það er sú leið sem ríkisstjórnin hefur gleymt og hefur ekki verið mikið í umræðunni — er að breikka skattstofnana. Endurheimta aftur þá skattstofna sem við töpuðum í kjölfar kreppunnar miklu, sem við gætum kallað svo.

Fleiri tillögur snúa beint að tekjuhlið ríkisins. Núna hafa þrjár ríkisstjórnir í röð gefið innstæðueigendum yfirlýsingu um að innstæður þeirra séu tryggðar af ríkinu. Við leggjum til að bankarnir verði látnir borga gjald fyrir þessa yfirlýsingu og það nemi 0,25% af innstæðunum. Innstæður eru núna í kringum 2.000 milljarðar þannig að slíkur skattur mundi gefa ríkinu í kringum 5.000 milljónir.

Jafnframt endurflytjum við tillögur okkar um að skattleggja inngreiðslur í séreignarsjóði. Það er rétt að taka fram að sú skattlagning kemur ekki niður á núverandi eigendum lífeyrissparnaðar í þessum sjóðum og ekki framtíðarlífeyrisþegum. Þarna er eingöngu verið að færa skatttekjur ríkissjóðs til í tíma. Miðað við nokkrar laufléttar forsendur og stöðu sjóðanna í dag munu tekjur ríkissjóðs af þessu á næsta ári, ef þessi skattlagning verður hafin, verða 80 milljarðar og síðan 7,5 milljarður á ári að meðaltali eftir það.

Það sem er kannski meira um vert eða alla vega jafnmikils um vert er að staða sveitarfélaganna mun batna í kjölfarið. Sveitarfélögin munu skipta á milli sín 40 milljörðum á næsta ári og síðan 3,5 milljörðum á ári eftir það. Það er mikilvægt í því árferði sem er núna og þeirri stöðu sem sveitarsjóðir landsins búa við.

Þannig að saman teknu erum við hér að tala um 121 milljarð í auknar tekjur fyrir ríkissjóð ef við náum að skapa 12.000 störf, ef við leggjum þennan skatt á bankana og ef við hefjum að skattleggja inngreiðslur í séreignarsjóði í stað þess að skattleggja útgreiðslur — 121 milljarður. Við sjáum að miðað við kostnaðinn við aðgerðirnar sem ég taldi upp áðan, í kringum 35–36 milljarða, er vel borð fyrir báru.

Hugmynd okkar er ekki sú að eyða því sem verður afgangs til að sleppa við að taka til hjá ríkinu og sleppa því við niðurskurð. Ef einhverjir halda að við munum fresta því að taka til í rekstri hins opinbera er það mikill misskilningur. Þá höfnum við algjörlega þeirri leið að skattleggja inngreiðslur í séreignarsjóði.

Ég hef rakið hugsunina í því hvernig tillögur okkar eða aðgerðir okkar koma út fyrir ríkissjóð. Það má vera hverjum manni ljóst núna að þetta er vel fjármagnað og við vitum hvaðan við ætlum að fá það fjármagn.