139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna m.a. til þess að leiðrétta formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki fámennt á ráðherrabekkjunum, það er enginn á ráðherrabekkjunum. Þetta er ekki líðandi. Það er þannig að hæstv. forsætisráðherra hefur sagt frá því að mikill áhugi sé hjá ráðherrum og ríkisstjórn að heyra sjónarmið sem uppi eru m.a. frá stjórnarandstöðunni um tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum, málefnum heimilanna. Nú er það þannig að lagðar hafa verið fram þessar ítarlegu tillögur. Málin voru rædd fyrir helgi. Hvorki hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. forsætisráðherra treystu sér til þess að sitja undir umræðunum, hvað þá að taka þátt í þeim. Hæstv. utanríkisráðherra gerði það að einhverju leyti. Hann er reyndar á mælendaskrá síðar í dag. En það er óþolandi að þinginu sé sýnd slík lítilsvirðing af hálfu hæstv. ráðherra að þeir hafi ekki döngun í sér til þess að sitja undir þessari umræðu hvað þá að taka þátt í henni.