139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:06]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég hef ákveðið að tjá mig um tillögur Sjálfstæðisflokksins til þingsályktunar um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð o.s.frv. Ég fagna framlagningu þessara tillagna. Þær eru gott innlegg í efnahags- og samfélagsumhverfið sem Íslendingar búa við í dag. Það veitir svo sannarlega ekki af að þingmenn og stjórnmálaflokkar komi fram með tillögur að úrbótum. Þó að margt sé í tillögunum sem ég er ósammála, er líka ýmislegt athyglivert sem vissulega þarf að taka tillit til og ræða um.

Við búum við þá staðreynd, að mínu mati, að sitjandi ríkisstjórn er ekki fær um að leysa úr þeim brýnu efnahagsvandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er kannski hluti af samráðsferlinu sem ríkisstjórnin hefur kallað eftir. Það kemur þá í ljós með hvaða hætti samráðið verður. Ég hef setið allmarga svokallaða samráðsfundi með svokölluðum fimm ráðherra hóp um skuldavanda heimilanna. Enn sem komið er hefur engin tillaga stjórnarandstöðunnar ratað þar inn í plögg. Það er skylda okkar þingmanna að halda áfram og vita hvort við náum að þoka málum í fleiri áttir en þá einu sem ríkisstjórnin stefnir í.

Ég ætla að tæpa á nokkrum atriðum í sem stystu máli.

Það sem ég geri fyrst og fremst athugasemd við og er ósammála um eru tillögur Sjálfstæðisflokksins varðandi skuldavanda heimilanna. Þeir leggja til að lengt verði í lánum fólks. Að ekki verði farin leiðin sem margir hafa talað fyrir að það þurfi almenna leiðréttingu. Lenging lána skilar nánast engu út í samfélagið. Það gerir ekkert annað en að búa hér til japanskt ástand þar sem skuldsett heimili munu næstu ár og jafnvel áratugi eiga í mestu erfiðleikum með að koma sér út úr skuldavandanum. Það mun hamla hagvexti. Við höfum dæmi um þetta utan úr heimi. Þau dæmi eigum við ekki að elta. Við þurfum aðrar aðferðir til þess að koma á hagvexti. Aukning einkaneyslu er fljótvirkasta og besta leiðin til þess. Við fáum ekki inn erlenda fjárfestingu svo neinu nemur á næstu árum og við munum ekki heldur fá innlenda fjárfestingu miðað við það óvissustig sem verður áfram með heimilin. Fólk mun ekki fjárfesta hér vegna þess að heimilin munu ekki hafa fjármuni til þess að eyða.

Ég geri athugasemd við þá liði sem hér eru taldir upp og lýsi því yfir við sjálfstæðismenn að það vantar almenna leiðréttingu. Almenn leiðrétting á skuldum heimilanna er góð fyrir almenning. Hún er góð fyrir lífeyrissjóðina, því lífeyrissjóðirnir munu hvort sem er ekki innheimta allar skuldirnar sem eru útistandandi. Það kom skýrt fram í gær að Avens-stíllinn svokallaði gefur lífeyrissjóðunum nærri því 30% afslátt af bréfum sem þeir fengu frá Seðlabankanum. Auðvitað ber lífeyrissjóðunum skylda til þess að láta afsláttinn ganga til íbúðareigenda. Það þýðir að þar er kominn helmingur fjárhæðarinnar sem þeir segjast munu tapa á þessari almennu leiðréttingu. Það er borð fyrir báru ef menn nenna að hugsa málið í víðara samhengi.

Það er gott fyrir ríkissjóð að fara út í almenna leiðréttingu því það örvar einkaneyslu um leið. Þar með er það gott fyrir hagkerfið og bankana.

Einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins voru um tíma: Gjör rétt — þol ei órétt. Skuldavandinn sem heimilin eru komin í er kominn til vegna gríðarlegs óréttlætis. Það kemur mér á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki leggjast á árarnar með það að leiðrétta þetta óréttlæti. Stétt með stétt, sögðu þeir líka einu sinni.

Tillögur um að lengja í lánum eru heldur ekki í þeim anda.

Hér eru jákvæðar tillögur sem ég tek heils hugar undir, að skattkerfið verði endurskoðað í heild sinni með einföldun, hagkvæmni og hvata til verðmætasköpunar að leiðarljósi. Við búum við óþarflega flókið skattkerfi. Ég hef velt upp róttækum tillögum í þeim efnum að skattkerfi, skattaumgjörð og bókhaldslög fyrirtækja verði einfölduð með róttækum hætti. Það mundi leysa úr læðingi gríðarlega fjármuni sem fara í reikningshald og alls konar bókhaldsæfingar sem bæði taka fé, tíma og fyrirhöfn og skila kannski ekki sérlega miklu þegar upp er staðið.

Hér eru markvissar tillögur gegn atvinnuleysi. Talað er m.a. um að boðið verði upp á aðstoð við fólk sem hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur og hefur áhuga á að hefja eigin rekstur. Þeim einstaklingum verði veittur réttur og aðstoð, menntun, fyrirgreiðsla og eftir atvikum bein fjárframlög er jafngilda 500 þús. kr. Þetta held ég að sé feikilega góð hugmynd. Það er mikill skaði fyrir samfélag að hafa fólk lengi atvinnulaust. Rannsóknir sýna að þegar fólk hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur eru litlar líkur á því að það fari nokkurn tímann aftur út á vinnumarkaðinn. Það er alvarleg staða. Allar tillögur sem koma í veg fyrir þetta eru af hinu góða.

Ég hjó eftir einu í tali formanns flokksins þegar hann mælti fyrir tillögunni. Hann talaði um að endurheimta þyrfti fyrri styrk atvinnulífsins. Ég set fyrirvara við þá yfirlýsingu. Fyrri styrkur atvinnulífsins sem hann vísar til var byggður á blekkingu og var ekki til staðar. Atvinnulífið og efnahagslífið sem hér var stóð á brauðfótum og hrundi til grunna. Við verðum að vara okkur á því að fara ekki inn á sömu braut. Við verðum að byggja upp atvinnulíf og efnahagslíf sem stendur á traustum grunni.

Þessar tillögur gera það að einhverju leyti en að einhverju leyti gera þær það ekki vegna þess að heimili landsins verða áfram veik og efnahagslífið verður að byggja á styrkri stoð heimilanna.

Ég hef áður talað um flokkana sem hafa lagt fram tillögur t.d. í atvinnumálum. Við ræddum tillögur Framsóknarflokksins um samvinnuráð um þjóðarsátt. Það sem var eftirtektarvert var að þeir lögðu ekki fram neinar tillögur sem þeir vissu fyrir fram að yrðu deilur um. Það er mikilvægt því við höfum séð það þennan tíma sem ég hef verið á þingi að flokkar leggja fram tillögur í atvinnumálum sem þeir vita fyrir fram að verður deilt um.

Nú er það svo sem allt í lagi að menn deili um hlutina í þinginu, til þess erum við hér að einhverju leyti. Það er ekki vænleg aðferð til þess að ná fram atvinnuuppbyggingu ef menn festast æ ofan í æ með tillögur sínar sem skila engum niðurstöðum. Ég hef velt þeirri hugmynd upp hvort menn ættu ekki að hugsa sig tvisvar um og setja fram tillögur í atvinnumálum sem menn reikna fyrir fram með að verði ekki deilur um. Hvort það sé ekki líklegra að þær tillögur muni frekar ná fram að ganga og skila árangri.

Hér vísa ég óbeint til tillagna um stóriðju t.d. og stórfelldar virkjanaframkvæmdir án þess að ég komi með aðrar tillögur í staðinn. Hugsunin á bak við þetta er að leggja fram tillögur sem menn vita að valda deilum. Sú aðferð hefur ekki skilað miklu og mætti því hugsa þá aðferð upp á nýtt.

Hér eru aðrar tillögur sem eru til mikilla bóta varðandi rekstur ríkisins. Í fyrsta lagi að innleiða fjármálareglu sem styður við stjórn peningamála og hemur hagsveifluna. Þetta þarf að vera nauðsynlegt úr því við munum áfram búa við krónuna. Það er ómögulegt að sjá hvernig hún á að spjara sig án þess að rústa efnahagslífinu nema að hér verði innleiddar einhvers konar reglur í fjármálastjórn ríkisins ásamt því að seðlabankinn verði með einhvers konar gengisviðmið frekar en verðbólguviðmið.

Að lokum er tillaga um að innleiða skattlagningu inngreiðslna séreignarsparnaðar. Það hefur komið fram að hún mun skila umtalsverðum tekjum fyrir ríkið. Við þessar aðstæður tel ég bráðnauðsynlegt að leitað verði allra leiða til þess að minnka hallann sem er á ríkissjóði án þess þó að fara út í þær gríðarlegu niðurskurðartillögur sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Við í Hreyfingunni munum endurflytja breytingartillögur okkar frá því í fyrra um tekjur fyrir ríkissjóð frá öðrum stöðum en með aukinni skattlagningu. Hér eru tillögur sem vonandi er hægt að ræða í góðri sátt og jafnvel ná samkomulagi um í þinginu. Ég held að það sé það sem við þurfum í dag.