139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tölum um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Grunnhugsunin með stighækkandi tekjuskatti er sú að þeir sem betur hafa það, eiga meira undir sér, hafa hærri tekjur, taki á sig aukningu, taki á sig auknar byrðar fyrir þá sem minna eiga. Ég er jafnaðarmaður og er að grunni til samþykkur þeirri nálgun. Ég er hins vegar algerlega sammála þeirri nálgun sem hv. þingmaður vekur athygli á, að ef við göngum of langt í þessum efnum er hættan t.d. sú að við hvetjum til svartrar atvinnustarfsemi. Við verðum að freista þess að ná jafnvægi þar á milli. Ég vildi sannarlega ekki þurfa að leggja mikla skatta á almenning í landinu, hann hefur ekki úr miklum peninga að spila til að borga skatta. En því miður er staða ríkisins sú að við þurfum að leita allra leiða, við þurfum að fara í allar matarholur og sumar matarholurnar eru hjá þeim sem hafa hærri laun. En við verðum að sjálfsögðu að gæta að jafnvæginu, að gæta þess að ganga ekki of langt, og þess vegna hef ég ekki verið sérstaklega hrifinn af mjög umfangsmiklum skattahækkunum.