139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær upplýsingar sem hv. þingmaður færir okkur af fundi efnahags- og skattanefndar í morgun koma mér dálítið á óvart vegna þess að það var einmitt varað við því að hækka skattana svona mikið því að þá mundi þurfa að afskrifa meira af þeim. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort við séum í einhverri sjálfsblekkingu, hvort þessir skattar séu þá bara tapaðir. Við vitum að skattarnir sem reiknað er með — ég þekki ekki alveg sundurliðunina, ég hef ekki séð hana, en staðgreiðslunni er skilað innan fyrirtækjanna. Síðan eru einhverjir eftiráskattar sem lagðir eru á fólk út af leiðréttingu á skattframtölum árið 2009. Mér finnst það dálítið skrýtið ef miklar skekkjur eru þar inni, ég verð að viðurkenna það. Ég á því miður ekki sæti í efnahags- og skattanefnd en ég treysti hv. þingmanni í því efni og tek mark á því sem hann segir varðandi það ef menn hefðu farið rólegar í sakirnar, en menn mega þá ekki reikna með að fá féð einhvern tíma seinna, það getur hugsanlega verið tapað.

Hv. þingmaður spurði líka þeirrar grundvallarspurningar hvar við værum stödd í dag ef við hefðum ekki farið í skattahækkanir. Ég ætla ekki að alhæfa um það en ég tel hins vegar að ef við hefðum farið þá leið sem við sjálfstæðismenn boðuðum í fyrra, þ.e. í séreignarlífeyrissparnaðinn, og ég veit að hv. þingmaður hafði miklar væntingar til þeirrar aðferðafræði, held ég að við værum mikið betur stödd, sérstaklega í ljósi þess sem ég rakti áðan um vaxtabæturnar, 1,8 milljarða, vegna þess að ráðstöfunartekjur heimilanna eru minni. Við vitum það öll hér inni að ef maður hækkar skattana á fólkið í landinu hefur það minni ráðstöfunartekjur. Það stoppar hagkerfið, það er algerlega vitað, og þess vegna velti ég fyrir mér öllum kostnaðinum sem fór í að breyta skattkerfinu, það kostaði líka mikið. Þá þurfti að fjölga starfsfólki og fara í mjög miklar og dýrar breytingar í tölvukerfum og víða annars staðar. Hinn almenni borgari þarf í auknum mæli að leita sér aðstoðar við gerð skattframtala og það kom fram á fundi fjárlaganefndar fyrir nokkrum dögum að eldri borgarar eru algerlega (Forseti hringir.) orðnir ráðvilltir í þeim efnum. Ég er því (Forseti hringir.) sannfærður um að (Forseti hringir.) við værum mikið betur stödd í dag ef við hefðum ekki farið í þessar breytingar.