139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru kannski ekki beinar spurningar sem til mín var beint en ég þakka að lokum fyrir það innlegg sem Sjálfstæðisflokkurinn kom með þótt ég sé ekki sammála mörgu sem þar kom fram. Hugmyndir til að örva atvinnulífið og styrkja það eru mjög góðar og ber að skoða þær mjög vel í þingnefndum en ég ítreka að mér finnst tekjugrundvöllurinn undir þessum tillögum veikur og ekki í anda ábyrgrar fjármálastjórnar.

Að skattleggja séreignarsparnaðinn er ákveðið hlið sem við þurfum að ganga varlega um og íhuga vel. Við eigum ekki að fresta nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum eða aðgerðum við að rétta af ríkissjóð með því að skattleggja séreignarsparnaðinn. Ég vil t.d. ekki nota séreignarsparnað til að vinda ofan af þeim skattbreytingum sem við fórum í þegar við jöfnuðum tekjuskattinn til tekjujöfnunar fyrir almenning. Ég vil ekki ganga á séreignarsparnaðinn til að fresta nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum í útgjöldum en ég ítreka að ég vil að við höldum okkur við rammann þó svo að við þurfum kannski að færa til einhverja fjármuni innan þess fjárlagafrumvarps sem við ræðum nú. Séreignin er að einhverju leyti lán frá framtíðinni og við þurfum að fara varlega vegna þess að við þurfum að taka á vandanum sjálf.

Að öðru leyti óska ég eftir því að hugmyndir sjálfstæðismanna fái góða umræðu efnislega á vettvangi þingnefnda.