139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:03]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er ekki viðkvæmur maður en ég ætla ekki að sitja undir því hérna í þingsalnum að félagar mínir á þingi, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, lýsi því yfir að maðurinn sé asni. Þar með talinn ég náttúrlega, hann sjálfur og allir jarðarbúar. Máli sínu til stuðnings dró hann fram hagfræðikenningu sem ég hélt að allir hefðu skilið við fyrir löngu. Vissulega er það til í mannlegri hegðun að hegða sér eins og asni sem eltir gulrót hvað sem tautar og raular. Dýrsleg græðgi er til. Hún er samt ekki grundvallarhvöt mannsins. Rannsóknir hafa sýnt að eftir að maðurinn hefur satt hungur sitt eru aðrir hvatar sem ráða hegðun hans en stærð gulrótar.

Mér er sama hvaða sjálfsmynd hv. þingmaður hefur en ég tek ekki undir orð hans (Forseti hringir.) að maðurinn sé asni, með allri virðingu fyrir kjósendum hans og honum sjálfum.