139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að komast til að taka þátt í umræðunni enda er mér tjáð að eftirspurn hafi verið eftir því að við sýndum okkur við umræðuna. Það er rétt og skylt að reyna að gera eftir því sem tíminn frekast leyfir.

Mér finnst alltaf gott að þingmenn og þingflokkar geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og leggi mál sín fram í formi þingmála með öðrum hætti. Það er góðra gjalda vert að rökræða málin út frá mismunandi hugmyndum og sýnum um lausnir mála. Það fer eftir atvikum, eins og oftast er, að maður er sammála ýmsu en kannski ekki endilega öðru sem lagt er fram. Ég heyrði á orðaskiptum áðan að menn hefðu áhyggjur af tekjuáætlun ríkissjóðs og því hvernig skattar skiluðu sér til ríkisins við þessar aðstæður. Ég get vonandi glatt hv. þingmann með því að tekjuáætlunin er núna, miðað við síðustu tölur úr ríkisbókhaldinu, heldur að styrkjast á nýjan leik þannig að horfur fara batnandi og við verðum að mestu á áætlun á þessu ári hvað varðar skattskil til ríkisins. Það hlýtur að gleðja menn. Segja má að það sé í raun mjög góður árangur í ljósi þess sem m.a. bar á góma áðan að ýmsir eiga í erfiðleikum með að standa skil á skattgreiðslum sínum svo sem eins og skuldsett fyrirtæki sem eru að berjast upp úr erfiðum áföllum og rekstri.

Það hefur líka áhrif að reynt hefur verið að taka mildilega á innheimtu og aðstoða menn með ýmsum hætti til að ráða skil á sínu. Þannig höfum við t.d. gert fyrirtækjum kleift að gera upp með hagstæðum hætti áfallnar eldri skattskuldir. Það þýðir að sjálfsögðu að tekjurnar berast ríkinu síðar en líkurnar aukast á því að ríkið fái að lokum sitt. Þetta auðveldar fyrirtækjunum að komast í gegnum skaflinn. Þegar hafa á milli 400 og 500 fyrirtæki nýtt sér þennan kost, þ.e. að færa yfir á skuldabréf til nokkurra ára eldri áfallnar skattskuldir. Skilyrðið er að fyrirtækin séu þá í skilum með samtímagreiðslurnar. Þessi aðgerð hefur heppnast vel og aðstoðað mörg fyrirtæki við að komast áfram. Sama gildir almennt um innheimtuna. Það er reynt að finna leiðir með aðilum til að leysa málin fremur en að gera ekkert.

Það er að vísu þannig að tekjurnar samanstanda af ólíkum þáttum. Það er eins og alltaf gengur. Það er erfitt að áætla nákvæmlega hvað hver og einn tekjustofn gefur af sér. Almennt talað hafa beinu skattarnir verið heldur lægri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir en óbeinu skattarnir yfir mörkum. Þó er ánægjulegt að núna í fyrsta sinn virðist t.d. tryggingagjald vera komið upp fyrir tekjuáætlun sem er ánægjuleg vísbending um að umsetningin í atvinnulífinu og launagreiðslur séu að aukast og virðisaukaskattur er vel yfir áætlun þannig að það vegur upp að verulegu leyti slaka á öðrum tekjustofnum.

Varðandi skattkerfisbreytingarnar og skattahækkanirnar sem menn tala um, þá held ég að það sé hollt fyrir menn að hafa í huga að að uppistöðu til eru þær breytingar fyrst og fremst til þess að halda í horfinu, til að koma í veg fyrir að tekjustofnarnir gefi enn meira eftir en ella væri. Það er fyrst og fremst ein skattkerfisbreyting sem er til umtalsverðar hækkunar og það er engin dul dregin á það, það er hækkun tryggingagjaldsins. Það hefur verið hækkað umtalsvert í góðu samstarfi ríkisins og aðila vinnumarkaðarins til að mæta kostnaðarauknu atvinnuleysi. Það er langumtalsverðasta skattahækkunin sem fram hefur farið.

Að öðru leyti er um tvennt að ræða. Það eru aðgerðir til að tekjustofnarnir haldi í horfinu. Þeir eru reyndar að skila lægra hlutfalli í heild, hlutfall af þjóðartekjum, en á undangengnum árum. Hins vegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skattkerfinu, ekki eingöngu í því skyni að afla tekna heldur vegna þess að hugmyndir okkar um skattkerfið eru aðrar en þeirra sem fyrir voru. Er það eitthvað skrýtið? Það eru önnur pólitísk leiðarljós uppi á Íslandi í dag í samræmi við vilja kjósenda í síðustu alþingiskosningum. Við höfum gert miklar breytingar á tekjuskattskerfinu til að stórauka á nýjan leik tekjujöfnunargildi þess. Það höfum við gert annars vegar til að innleiða sérstakt þrep á lægri laun sem mun í enn frekari mæli á þessu ári skila sér í því að lágtekjufólki er hlíft við skattahækkunum. Það er reyndar þannig að það greiðir lægra hlutfall ráðstöfunartekna sinna í skatta í ár en það gerði í fyrra og væntanlega enn lægra hlutfall miðað við álagningu á næsta ári en þar áður. Í staðinn greiða hinir tekjuhæstu meira, það er rétt. Þannig höfum við innleitt þrepaskiptan tekjuskatt sem óumdeilanlega og sannanlega, miðað við gögn frá ríkisskattstjóra eftir álagninguna í sumar og miðað við rannsóknir fræðimanna hjá fleiri en einni stofnun, hafa stóraukið tekjujöfnunargildi tekjuskattskerfisins á nýjan leik. Við höfum innleitt ýmsar umbætur í skatti eins og fyrsta kolefnisskattinn á Íslandi í þágu þess að undirbúa okkur og færa okkur í áttina að því að mæta loftslagsmarkmiðunum. Menn munu sjá meira í þá veru á næstu dögum þegar bifreiðagjöldum og vörugjöldum verður breytt í sama skyni þar sem andlag skattlagningarinnar verður losun gróðurhúsalofttegunda en ekki kíló af stáli eða rúmsentímetrar véla.

Við höfum innleitt fleiri breytingar, t.d. tekið á ýmsum veikleikum sem voru í skattkerfinu þar sem menn höfðu algerlega vanrækt að takast á við breytta tíma eins og að geta beitt samsköttun á íslensk móðurfélög og erlend dótturfélög á aflandssvæðum, svokallaðar CRC-reglur til að hægt sé að ná utan um það með eðlilegum hætti eins og gert er alls staðar í löndunum í kringum okkur. Ég gæti talið mun fleira upp.

Við höfum líka beitt ýmsum ívilnunum. Ég nefni sem dæmi skattaívilnanir í þágu nýsköpunar og sprotafyrirtækja sem við munum væntanlega útfæra og gera breytingar á til rýmkunar á þessu þingi. Við höfum hækkað endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði úr 60 í 100% og við höfum bætt við skattaívilnunum til handa einstaklingum sem ráðast í slíkar framkvæmdir. Þetta hefur þegar skilað því að sennilega hafa um 10 þúsund heimili bæst í hópinn sem hefur nýtt sér þessi úrræði til að ráðast í framkvæmdir og nýtur góðs af skattaívilnunum sem þarna eru á ferðinni. Átakið Allir vinna hefur tvímælalaust heppnast vel þannig að hv. þingmenn mega líka muna eftir því að þessi ríkisstjórn hefur á sumum sviðum lækkað skatta og beitt skattaívilnunum og hvetjandi aðgerðum. Þetta er því ekki eins svart/hvítt og menn vilja vera láta. Ég tel það fjarri öllu lagi að halda því fram að ráðstafanir ríkisins að þessu leyti á tekjuhliðina hafi verið óhóflegar, þvert á móti í öllum aðalatriðum hafa þær heppnast vel og hjálpað til við að fleyta samfélaginu í gegnum þetta með því að færa byrðarnar á þá sem betur mega sín og koma í veg fyrir að við þurfum að skera enn meira niður í staðinn. Það væri auðvitað besti valkosturinn nema menn sættu sig við það sem ég geri ráð fyrir að sé ekki, að reka ríkissjóð með enn þá meiri bullandi halla.

Um tillögur sjálfstæðismanna vil ég segja það að öðru leyti að margt af því sem talið er upp í sambandi við málefni heimilanna er í vinnslu eða hefur þegar verið gert eins og t.d. það sem liggur fyrir þinginu að stytta fyrningarfrest við gjaldþrot. Tillagan hefur kannski verið unnin áður en frumvarpið leit dagsins ljós.

Margt sem hér er sagt bæði um að vinna markvisst í II. kafla, að vinna markvisst gegn atvinnuleysi, að hjálpa fólki að eyða óvissu í sambandi við umhverfi atvinnustarfseminnar og að vinna hratt úr skuldavanda heimilanna. Að sjálfsögðu erum við öll sammála um mikilvægi þess að þetta sé gert. Ekki síst fagna ég III. kafla um aðhald í rekstri ríkisins og það sé mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar. Já, það er það að sjálfsögðu. Það er liður í því og hluti af því að takast á við ríkisfjármálin þannig að rekstur ríkisins og sveitarfélaga verði sjálfbær og við hættum að safna skuldum og hættum að missa fleiri krónur af hverjum 100 í að borga vexti. En þá hlýtur tekjuöflunarhliðin að mega vera þar undir og sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við að það var ekki beinlínis auðvelt að takast á við kreppuna þegar hún skall á með öllu sínu höggi eins og tekjuöflunarkerfi ríkisins var orðið úr garði gert, eins og búið var að veikja hina traustu undirstöðutekjustofna ríkisins. Hvers vegna gátu menn gert það? Annars vegar af því að þeir ráku þá pólitík og hins vegar vegna þess að froðutekjur af bólunni héldu afkomu ríkisins, og að hluta til sveitarfélaganna, uppi á þessum vitleysisárum. Svo hvarf það allt eins og dögg fyrir sólu. Hvað er annað hægt að gera en að reyna aftur með sanngjörnum og réttlátum hætti að treysta undirstöður samneyslunnar? Samt munu Íslendingar, þrátt fyrir þessar ráðstafanir, þurfa að sætta sig við að hún verði á nokkurra ára bili lægra hlutfall af landsframleiðslu en við viljum sjá til frambúðar sem norrænt velferðarríki.

Síðan skilja leiðir í sumum tilvikum, t.d. þegar sjálfstæðismenn vilja ákveða fyrir fram að auka þorskkvótann um 35 þúsund tonn án þess að nokkur fiskifræðilegur, viðskiptalegur eða sjálfbærnislegur grundvöllur sé lagður undir. Þetta finnst mér of langt gengið. Svipað gildir um að ákveða það með fyrirmælum að ráðist skuli í tilteknar framkvæmdir. Ég hélt satt að segja að þeir tímar væru liðnir að menn gæfu fyrirmæli frá Alþingi um að ráðast skyldi í tiltekin verk, fjárfestingar eða uppbyggingu úti á markaði. Það sem snýr að stjórnvöldum í þeim (Forseti hringir.) efnum eru þá lög og reglur, leyfisveitingar og annað slíkt en tæplega að skipa fyrir um það ofan frá að þessi eða hin framkvæmdin skuli (Forseti hringir.) fara af stað hvað sem tautar og raular.