139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég ætla að spyrja hann að því hvort það sé ekki eignfært hjá ríkissjóði og tekjufært þegar menn eru mildilegir í innheimtu, þ.e. draga það að innheimta skatta. Og þegar menn borga með skuldabréfi, hvort skuldabréfið sé þá ekki eignfært hjá ríkissjóði og tekjufært.

Síðan er það sem maður rekst aftur og aftur á að hæstv. fjármálaráðherra telur lækkandi skatttekjur vera merki um að skattar hafi lækkað. Ég man ekki eftir einum einustu sköttum ríkisstjórnarinnar sem voru til lækkunar. Þeir voru allir til hækkunar og samt gefa þeir lægri skatttekjur vegna þess að stofninn kiknar undan skattinum. Heimili landsins vita það, lágtekjuheimilin sem borga stóraukna skatta á bensín, það er hvergi inni í þessu. Það er áfall fyrir lágtekjuheimilin en kemur hvergi fram. Fólk sem fer í sturtu og borgar gjald fyrir það, lágtekjufólk fer líka í sturtu, það borgar meiri skatta.