139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þá rétt sem ég skildi, og öndvert við það sem þingmenn hafa sagt í umræðunni, að mildileg innheimta lækkar ekki tekjur ríkissjóðs, lækkar ekki neitt. Það má eiginlega segja að það hækki þær vegna þess að þetta eru bókfærðir skattar sem hugsanlega verða ekki greiddir í framtíðinni, þannig að áhættan er komin út úr húsi.

Það sem ég vildi segja við hæstv. fjármálaráðherra er þetta: Allir skattarnir sem ríkisstjórnin lagði á — þar á meðal það sem ASÍ hafði samið um, að persónuafslátturinn fylgdi verðlagi, var tekið burt, verst fyrir lægst launaða fólkið, verst fyrir það — allar þessar skattahækkanir koma nú fram sem lækkun á tekjum ríkissjóðs af sköttum, þ.e. skatttekjur ríkissjóðs minnka þrátt fyrir skattahækkanir. Þá veltir maður náttúrlega fyrir sér hvort sú stefna að skattað sé út úr kreppunni sé rétt.