139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Persónufrádráttur var hækkaður um 2.000 kr. og það ásamt með lágtekjuskattþrepinu gerir það að verkum að tekjulágt fólk með upp að 270–300 þús. kr. á mánuði borgar núna umtalsvert lægra hlutfall ráðstöfunartekna sinna í skatt. Það er staðreynd, hv. þingmaður. Það þýðir ekki að rífast við staðreyndirnar. Það er alveg vonlaust verk jafnvel þó að vaskir menn eigi í hlut, eins og hv. þm. Pétur Blöndal. Það er einfaldlega ekki þannig.

Varðandi tekjur ríkissjóðs þá eru þær ekki að minnka. Það tekst að halda þeim uppi og sumir skattstofnarnir, með þeim breytingum sem á þeim hafa verið gerðir, gefa umtalsvert meiri tekjur í ríkissjóð. Hvar værum við stödd með útgjöld vegna atvinnuleysis í landinu ef við hefðum ekki hækkað tekjustofninn til þess að bera straum af þeim kostnaði, þ.e. tryggingagjaldið? Útgjöld sem allt í einu fara úr fáeinum hundruðum milljóna eða 1 til 2 milljörðum upp í 25–27 milljarða á tveim árum eftir hrunið. Slíkt tekur í, hv. þingmaður. Það þýða engin töfrabrögð gagnvart slíkum aðstæðum. Menn verða að reyna að takast á við þær og mæta þeim með yfirveguðum blönduðum aðgerðum eins og þessi ríkisstjórn hefur verið að gera.