139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu, að bregðast við því kalli okkar að koma hingað og taka þátt í umræðunni.

Það verður seint sem við hæstv. fjármálaráðherra verðum sammála um skattamál. Ég get alveg játað að ég er ekki jafnhrifin af innleiðingu á þrepaskiptu skattkerfi og hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að ég trúi því að það sé eins og þegar menn ganga upp tröppur, menn fara þeir ekki upp í næsta þrep ef þar er fyrirstaða. Og það er það sem við erum að gagnrýna við þrepaskipt skattkerfi, að fólk festist í lægra þrepinu vegna þess að það reiknar þetta þannig að það borgi sig ekki að vinna meira því að þá fari hærra hlutfall teknanna í skatt.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aðeins út í umhverfisskattana og kolefnisgjöldin sem hann var að ræða, umferðarskatta og breytingar sem hann var að boða. Er það alltaf þannig að mati hæstv. fjármálaráðherra að nýir skattar, eins og þessir umhverfisskattar, komi sem viðbót í skattkerfinu eða ætlar hann að gleðja mig í andsvari sínu með því að tilkynna mér um lækkanir á móti umhverfissköttunum?