139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki kynnt mér vitanlega neinar hugmyndir um magn í þessum efnum, alla vega ekki í ríkisstjórn. Ég þykist hins vegar vita, og hef reyndar vitneskju um það, að hann sé að tala um hógværari nálgun en hér er sett fram af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er mikill munur á því hversu langt menn ganga í þessum efnum og langbest er auðvitað eins og við þekkjum báðir, ég og hv. þingmaður, ef það byggir á ráðgjöf og/eða byggir á einhverjum ákvörðunum um breytta samsetningu aflareglu eða breytt hlutföll sem við fáum viðurkenningu á hjá t.d. hjá ICES, þannig að við verðum ekki berskjölduð fyrir gagnrýni um að við séum eitthvað að beygja af leið, á algerlega ábyrga, sjálfbæra nýtingu stofnanna. Það er mjög mikið í húfi. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki selja vöru sína í æ ríkari mæli með þeim stimpli að hér sé um ábyrgar veiðar að ræða. Menn eru jafnvel að sækja um vottun á slíku og þá er það orðið viðkvæmt og vandasamt mál hvernig staðið er að ákvörðunum um afla (Forseti hringir.) og það verður að vera samrýmanlegt þessum sjónarmiðum því annars getur markaðsstarfið og fleira hrunið með einni ógætilegri ákvörðun.