139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ásamt svo mörgum öðrum sem hér hafa tekið til máls fagna tillögum sjálfstæðismanna. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þeir leggja ekki aðeins til að örva fjárfestingu í hagkerfinu heldur líka eftirspurn. Þó svo að ég sé ekki sammála þeirri leið sem þeir leggja til þá fagna ég því að þeir skuli gera sér grein fyrir að örva þarf sérstaklega eftirspurn í hagkerfinu. Einkaneysla hefur dregist saman um 25% og fjárfesting um önnur 25% en samdrátturinn í vergri landsframleiðslu aðeins um 10%. Það segir okkur að grípa þarf til róttækra aðgerða til að örva bæði eftirspurn og fjárfestingu í hagkerfinu.

Ég hefði viljað sjá aðgerðir til að örva eftirspurnina sem fælu í sér meiri jöfnuð en sú aðgerð sem sjálfstæðismenn vilja leggja til. Þeir vilja draga til baka allar skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar en markmiðið með þeim er m.a. að auka jöfnuð. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin hefur aukið skattbyrðina á þeim sem eru með mánaðarlaun yfir 375.000 kr. en létt hana á þeim sem eru með lægri tekjur.

Ég tel jafnframt að aðgerð eins og að lækka skatta til að örva eftirspurn sé ekki mjög árangursrík eða besta nýtingin á þeim fjármunum sem við notum til að örva eftirspurnina. Þeir sem njóta góðs af skattalækkun eru ekki bara þeir með lægstu tekjurnar heldur ekki síst þeir sem hafa hæstu tekjurnar. Það fólk hefur reyndar gert mjög mikið af því á undanförnum missirum að geyma fjármagn sitt inni á bankareikningum. Skattalækkunin mundi þá sennilega bara fara beint inn á innlánsreikninga þess.

Mér finnst alveg ótrúlegt, frú forseti, þegar ég les þessar tillögur sjálfstæðismanna, hve mikill samhljómur er með þeim og aðgerðum ríkisstjórnarinnar, ekki síst hvað varðar lausnir á skuldavanda heimilanna og einnig efnahagsáætlun AGS. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að við höldum okkur við þá efnahagsáætlun þrátt fyrir að hún byggi á mun minni samdrætti í efnahagslífinu en orðinn er.

Tillögur sjálfstæðismanna eru í tíu liðum. Eins og ég gat um áðan er annaðhvort búið að setja þessar tillögur í innleiðingarferli eða þær eru til umræðu hjá stjórnarflokkunum. Ég nefni sem dæmi tillögu sjálfstæðismanna sem komin er í innleiðingarferli. Það er fyrningarfrumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Sjálfstæðismenn leggja líka til að þeir sem verða gjaldþrota geti leigt gegn vægu húsaleiguverði. Þetta er eitt af því sem ríkisstjórnin stefnir að. Síðan hefur mikið verið rætt um að hækka neysluviðmið í greiðsluaðlögun en þau eru allt of lág og þarf að hækka.

Allar tíu tillögurnar má flokka með aðgerðum í anda frjálshyggjuvelferðarkerfis. Frjálshyggjuvelferðarkerfi grundvallast á hugmyndinni um að aðstoða aðeins þá verst settu og gera lítið sem ekkert fyrir þá sem í raun og veru halda uppi velferðarkerfinu. Það eru millitekjuhóparnir sem yfirleitt greiða hæst hlutfall af tekjum sínum í skatt. Eitt af vandamálum frjálshyggjuvelferðarkerfisins, sem fræðimenn hafa bent á, er einmitt að millistéttin hefur lítinn hvata til að greiða skatt vegna þess að öll úrræði og aðgerðir eru ekki fyrir hana heldur á hún bara að greiða fyrir þær. Aðgerðir sjálfstæðismanna til handa heimilunum miðast heldur ekki við að laga forsendubrest enda væri það ekki í anda frjálshyggjuvelferðarkerfis. Það væri meira í anda norræna velferðarkerfisins að grípa til almennrar leiðréttingar lána, lána sem hafa hækkað um a.m.k. 28%. Það þarf engar viðamiklar rannsóknir til að skoða hversu mikið þau hafa hækkað. Það þarf ekki annað en skoða vísitölu neysluverðs til að sjá það.

Það sem ég ætla líka að gera að umtalsefni er nokkuð sem ég rak augun í þegar ég var að undirbúa ræðuna. Það er tillaga sjálfstæðismanna um að gefa fólki möguleika á því að lækka greiðslubyrðina um helming á þremur árum. Þetta er mjög dýr aðgerð og óréttlát fyrir heimilin í landinu vegna þess að ef fólk mundi fara þessa leið er forsendubrestinum algerlega komið yfir á lántakendur. Þeir mundu margir hverjir að öllum líkindum verða gjaldþrota að þessum þremur árum liðnum vegna þess að það sem þeir greiða ekki á meðan mun safna vöxtum og fá á sig hækkun verðtryggingar.

Það sem ég undrast líka við tillöguna og hefur ekki komið fram er að sjálfstæðismenn skuli leggja til svona aðgerð sem felur bara í sér tímabundna lækkun á greiðslubyrði heimilanna. Eins og allir þeir sem hafa tekið inngangsnámskeið í hagfræði vita þá hefur tímabundin lækkun á greiðslubyrði heimilanna eða einstaklinganna engin áhrif á neysluna. Ef gripið væri til þessarar aðgerðar hefði hún engin örvandi áhrif á eftirspurn. Reyndar má geta þess að aðgerðin er í anda greiðslujöfnunar sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Það sem sjálfstæðismenn leggja til er bara enn meiri lækkun á greiðslubyrðinni en greiðslujöfnunin gerir ráð fyrir.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en vil greina frá óánægju minni með að sjálfstæðismenn tilgreini ekki nánar hvernig þeir ætla að afnema gjaldeyrishöftin. Þetta er eitt af því sem margir þingmenn Samfylkingarinnar hafa líka gagnrýnt. Það kemur fram í þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna að þeir ætli að afnema gjaldeyrishöftin á skömmum tíma. Þetta segir mér það eitt að þeir eru tilbúnir að taka mjög mikla áhættu því þessari leið fylgir mikil hætta á því að annað gengishrun verði. Að minnsta kosti sýnir reynsla annarra þjóða okkur að það er mjög erfitt og varasamt að afnema gjaldeyrishöft eftir bankahrun. Í raun og veru held ég að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi farið með okkur á ranga braut með því að innleiða gjaldeyrishöft sem fela í sér boð og bönn í stað þess að innleiða háa skattlagningu á útstreymi fjármagns. Það hefði losað okkur mjög fljótt við þá 400 milljarða sem eru núna inni í hagkerfinu og vilja út.

Ég vil að lokum biðja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að útskýra fyrir mér hvernig þeir ætla nákvæmlega að afnema gjaldeyrishöftin á skömmum tíma og að þeir greini frá því hvort þeir séu tilbúnir að taka þá áhættu að gengið hrynji. Það mundi leiða til þess að flestöll heimili og fyrirtæki í landinu yrðu gjaldþrota. Til að hægt sé að fara slíka leið þyrfti fyrst að afnema verðtrygginguna og jafnframt leggja skatt á útstreymið. Með öðrum hætti verður ekki hægt að losna við gjaldeyrishöftin.