139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það þannig að við horfum ekki nógu mikið til fortíðar. Ef við mundum gera það og skoða það sem gerðist í kreppunni miklu, ekki bara í Bandaríkjunum heldur hér á landi, mundum við átta okkur á því að efnahagsáætlun AGS er að gera vandann miklu verri. Við erum að skera niður á sama tíma og samdrátturinn er með því mesta sem við höfum séð lengi og niðurskurður á útgjöldum mun þýða að við þurfum að segja upp fólki og að skattstofnar muni dragast saman og tekjur ríkissjóðs. Á þarnæsta ári, sem sagt á árinu 2012, eftir niðurskurðinn á árinu 2011, þurfum við að skera niður af því að við skárum niður 2011. Þessu áttuðu Bandaríkjamenn sig á í kreppunni miklu eftir að hafa reynt þennan vítahring í nokkur ár og gert það sem varð mikill samdráttur af kreppu.

Hv. þingmaður. Ég óttast að við séum að fara sömu leið vegna þess að við viljum bara einblína á núið, ég skal viðurkenna að við mættum horfa meira á framtíðina en við erum fyrst og fremst að horfa á núið, á exel-skjölin sem eiga að stemma debet og kredit en ekki að velta fyrir okkur hvaða áhrif þessi afstemming hefur á fjárlög næstu ára.

Hvað varðar að örva eftirspurnina tel ég að hún verði mun meiri ef við hækkum lægstu laun og lægstu bætur frekar en að lækka skattbyrðina á þeim sem eru með hæstu launin eins og Sjálfstæðisflokkurinn virðist að minnsta kosti vilja gera.