139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því hve þessar tillögur fá almennt góðar viðtökur hjá þingmönnum stjórnarflokkanna og er mjög sáttur við ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar hér á undan. Hún sýnir að það er í mörgu tilliti ekki svo langt á milli manna þegar farið er að takast málefnalega á um hlutina og framtíðarsýn í því hvernig við eigum að leysa þann mikla vanda sem samfélag okkar er í í dag. Ég hef talað fyrir því og reyndar fleiri að unnið verði því að gera einhverjar breytingar á stjórnarmunstrinu þannig að slík umræða geti farið að fara fram við ríkisstjórnarborðið og ég lýsi að sjálfsögðu ábyrgð á hendur hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að halda þessari stjórn gangandi og þeim fámenna hópi við völd sem í raun og veru er hér á þingi og berst gegn uppbyggingu á þeim nótum sem hér er talað fyrir. Það er nefnilega staðreynd, virðulegi forseti, að þetta er ekki fjölmennur hópur sem heldur þinginu í gíslingu í þessum efnum, þetta er fámennur hópur. Það er mjög alvarlegt þegar svo er og kannski kristallast það best í þeirri umræðu sem fer fram núna um þessa tillögu.

Það var lengi búið að liggja yfir þessum tillögum til að gera þær sem bestar úr garði og fá að þessu verki með okkur sérfræðinga til að hér mætti leggja sem raunhæfastar tillögur á borðið. Það er ekki hægt að fjalla um vanda heimilanna öðruvísi en að fjalla um vanda fyrirtækjanna og öfugt. Þetta er hinn órjúfanlegi hringur og það sem skerðist hjá öðrum hefur áhrif á hinn o.s.frv. Þannig er það að þegar skattar eru hækkaðir á fyrirtæki eru fyrirtækin síður í stakk búin til að ráða fólk og greiða hærri laun og þegar skattar eru hækkaðir á einstaklinga erum við síður í stakk búin til þess að kaupa vöru og þjónustu af fyrirtækjunum.

Til þess að mæta heimilunum leggjum við til fjölbreyttar aðgerðir. Það er mikil einföldun eins og stundum hefur verið sagt af þeim sem hafa verið að gagnrýna þetta að við séum bara að bjóða hér lækkun á greiðslubyrði í þrjú ár, það er bara ein af mörgum aðgerðum. Við viljum styrkja vaxta- og húsleigubótakerfið, við viljum gera reglurnar einfaldari og rýmri til að mæta þörfum þeirra sem eru í miklum vandræðum og við horfum sérstaklega til þess hóps ungs fólks sem keypti sér fasteign á árunum eftir 2004, 2005. Það er mjög mikilvægt að ná til þessa hóps og leiðrétta það misrétti sem hann varð fyrir.

Við leggjum til að skattar verði lækkaðir og teljum að það sé kannski ein sterkasta aðgerðin sem hægt er að koma fram með gagnvart vinnandi fólki, því sem við köllum gjarnan millistéttina í landinu, því fólki sem ber mestu skattbyrðarnar eða borgar langstærsta hluta skattanna. Þessu fólki verður að gefa súrefni, þessu fólki verður að gefa vilja og hvata til þess að starfa og nenna að leggja á sig og bera úr býtum sem skilar sér síðan í auknum skatttekjum og miklu meiri neyslu sem er svo mikil þörf á og er svo atvinnuskapandi.

Við höfum tapað um 22 þúsund störfum frá því að hrunið varð, það er alveg gríðarlegt og við það verður ekki búið. Þess vegna er grundvöllurinn að öllu hér að koma súrefni til atvinnulífsins og koma fyrirtækjum af stað. Mikilvægast í því efni er auðvitað að ná til allra stóru og meðalstóru fyrirtækjanna í samfélaginu, greiða leið þeirra í endurskipulagningu, gefa þeim hvata til að starfa, gefa þeim skattafslætti, gefa þeim afslætti af tryggingagjaldi og öðru sem leiðir af sér hvata og þar með aukningu í ráðningum og verkefnum hjá þessum fyrirtækjum. Þetta er það sem er auðvitað hvað mikilvægast að grípa til í dag.

Við gerum þetta ekki af fullri alvöru nema við nýtum orkulindir okkar og um það verði samstaða að fara í virkjanir á orkulindum og auka útflutningsverðmæti og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi í gegnum það. Allir eru sammála um það, hvort sem það eru erlendir eða innlendir sérfræðingar, að það er okkar sterkasta og besta leið út úr þeim vandamálum sem hér steðja að. Til þess er nauðsynlegt að álverið í Helguvík fái allan þann stuðning sem hægt er hjá íslenskum stjórnvöldum en því hefur ekki verið að heilsa. Til þess er nauðsynlegt að framkvæmdirnar sem nú eru fyrirhugaðar á Bakka, og er í sjónmáli þar að hægt verði að fara í, fái allan þann stuðning stjórnvalda sem hægt er.

Við þessar framkvæmdir myndast ekki einungis mikilvæg og verðmæt störf til skemmri tíma, nokkurra ára við uppbyggingu á þessum svæðum, heldur til lengri tíma í þeim mikilvægu störfum sem munu myndast í þessum verksmiðjum. En hvað mikilvægust fyrir samfélagið eru þó þau útflutningsverðmæti sem þessar verksmiðjur munu skila okkur, allar þær tekjur sem munu koma inn í landið, allur sá gjaldeyrir sem mun koma inn í landið og er okkur svo gríðarlega mikilvægur.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að þetta eru hagkvæmustu framkvæmdirnar sem við getum farið í. Það er ágætt að rifja upp orð forstjóra Landsvirkjunar í því sambandi þegar hann kynnti okkur það á dögunum að ef Landsvirkjun þyrfti ekki að borga arð til eiganda síns, ríkisins, næstu tíu árin væri Landsvirkjun skuldlaus ef hún færi ekki í framkvæmdir á því tímabili og borgaði ekki arð. Eftir það gæti hún borgað 25 milljarða í rentu til samfélagsins á hverju ári. Það er helmingurinn af rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss á ári. Vinstri menn töluðu fyrir því þegar þessar framkvæmdir stóðu sem hæst að þær gætu aldrei borgað sig, það var talað um að Kárahnjúkavirkjun yrði myllusteinn um hálsinn á þjóðinni og þjóðin yrði með hærra orkuverð við að greiða niður þessa framkvæmd í framtíðinni. En þetta er staðan í dag, þetta verða menn að horfa á.

Við viljum í sjálfu sér beita sömu hvötum gagnvart atvinnulífinu og við viljum beita gagnvart heimilunum. Við viljum einfalda skattkerfið, við viljum efla fyrirtækin með því að gefa þeim súrefni og skapa fyrir þau hvata til að byggja upp. Við viljum fara í frekari veiðar, við teljum og færum fyrir því mjög góð rök að það sé raunhæft við þessar aðstæður að auka hlutfallið sem við tökum af þorskstofninum í 23% úr 20%. Stofninn, hvort sem er hrygningarstofn eða viðmiðunarstofn, hefur ekki verið svo sterkur sem raun ber vitni í áratugi. Við þær aðstæður sem eru núna væri mjög mikilvægt að gera þetta. En þetta verður að gerast á grundvellli þeirrar miklu vinnu sem fór fram í sáttanefndinni sem sjávarútvegsráðherra skipaði og lagði á sig vinnu í heilt ár og náði niðurstöðu. Þar áttu allir stjórnmálaflokkar aðild að, þar áttu allir hagsmunaaðilar aðild að og þeir komust að niðurstöðu, niðurstöðu sem er í þágu þjóðarinnar. Það er gríðarlega mikilvægt og ríkisstjórnin gæti bara með einni ákvörðun um að fara þessa leið, eflt atvinnu úti um allt land í sjávarútvegi og komið hjólunum virkilega í gang þar.

Sjávarútvegsfyrirtækin halda að sér höndum í dag vegna óvissu, þau fara ekki í fjárfestingar. Vélsmiðjur og önnur fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg eru verkefnalítil. Þessu er hægt að breyta með einni ákvörðun og einni tilkynningu en í stað þess að gera það veltir ríkisstjórnin sér áfram upp úr því að hóta þessari grein og gera viðurværi hennar alveg útilokað. Virðulegi forseti. Það sem er kannski það alvarlegasta í þessu öllu eru skilaboðin frá ríkisstjórnarborðinu.

Ég deildi í morgun eftirvæntingu með Suðurnesjamönnum fyrir fund ríkisstjórnarinnar sem haldinn var suður með sjó. Ég hélt að þar mundu koma fram einhverjar tilkynningar, einhver jákvæð skilaboð til þjóðarinnar og til fólksins á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið er verst. En það er alveg táknrænt fyrir málstað og boðskap núverandi ríkisstjórnar að það eina sem tilkynnt var um, virðulegi forseti, í atvinnumálum, það eina sem var nokkuð öruggt á Suðurnesjum var að þar yrði komið á fót hersetusafni, þar yrði sett á fót minjasafn um hersetuna. Þetta var það eina sem var alveg ákveðið að bjóða Suðurnesjamönnum upp á á sama tíma og verið er að skera niður öll framlög til safnamála á Íslandi.

Virðulegi forseti. Vandamál okkar í allri uppbyggingu er auðvitað það ástand sem er innan ríkisstjórnarinnar, hversu föst hún er í baksýnisspeglinum (Forseti hringir.) að hún nær ekki að horfa fram á veginn. Ég ítreka að það er á ábyrgð stjórnarþingmanna að við skulum búa við þetta. (Forseti hringir.) Þessu verður að breyta.