139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögum okkar er gerð vel grein fyrir því hvernig við viljum fara í þessar breytingar í skattamálum. Við viljum afturkalla að mestu leyti þær breytingar sem hafa verið gerðar af núverandi ríkisstjórn og endurskoða síðan skattkerfið með það að markmiði að einfalda það og gera það gagnsærra og við viljum ljúka þeirri vinnu fyrir ágúst á næsta ári.

Þeir skattar sem augljóslega þarf að lækka eru skattar eins og tryggingagjaldið og við komum að því hvernig við viljum beita því sem hvata til þess að farið verði í ráðningar. Við getum talað um ákveðin vörugjöld og skatta á ákveðnar neysluvörur sem hafa verið settir á. Við getum talað um tekjuskattinn, við getum talað um skatta af millifærslum milli móðurfélaga og dótturfélaga svo að eitthvað sé nefnt. En fyrst og fremst þarf að einfalda þetta, það þarf að búa til skattkerfi sem hefur í för með sér hvata, það er engin leið við þær erfiðu aðstæður að skattleggja sig út úr þeim vandræðum sem við erum í. Við verðum að framleiða til að koma okkur út úr þessum vandræðum og til þess að fá framleiðsluna í gang verður að vera einhver hagur fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að leggja meira á sig, fórna meiru og fara í frekari fjárfestingar. Það er eina leiðin. Við áætlum að með því að fara þessa leið getum við strax á næsta ári farið að efla skattstofnana sem fyrir voru það mikið að það muni skila okkur sömu tekjum. Við höfum í gegnum tíðina ítrekuð dæmi þess að þegar dregið er úr frekari skattpíningu skila skattarnir okkur meiru.

Varðandi flata niðurfellingu, ég skal koma að því aðeins í seinna andsvari mínu því að ég sé að tíminn er liðinn.