139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svör hans. Varðandi önnur mál, atvinnumál, þá eyddi hv. þm. Jón Gunnarsson í fyrri ræðu sinni talsvert miklu púðri í að ræða um það sem kallað er stórframkvæmdir eða álver, orkunýting og álver. Nú er það þannig að hjá þeim þrem álverum sem starfa hér á landi eru um 1.500 manns að störfum. Gefum okkur að það sé annað eins í afleiddum störfum, þá erum við að tala um 3.000 störf í þessum þrem álverum. Á vinnumarkaðnum á Íslandi eru hins vegar um 170.000 manns þannig að við erum að tala um að þarna vinni rétt eða innan við 2% af vinnuafli þjóðarinnar.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann um þetta atriði: Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að byggja mörg álver á Íslandi til að uppfylla þarfir hans og þá væntanlega Sjálfstæðisflokksins varðandi þær atvinnutillögur sem hér koma fram miðað við þær upplýsingar sem hér liggja?

Í öðru lagi varðandi atvinnumál, um aukningu á þorskveiðum um 35 þús. tonn sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvaða rök liggja þar að baki. Hefur verið tekin ákvörðun um það eða gerð tillaga um það af hálfu Sjálfstæðisflokksins að taka eigi lengri tíma en áætlað var áður í að byggja upp þorskstofninn, að það eigi að fara hægar í það en áður? Hvaða rök liggja þar að baki? Það eru a.m.k. ekki þau fiskifræðilegu rök sem Hafrannsóknastofnun hefur beitt. Hvaða afleiðingar kann það að hafa t.d. fyrir útflutning á sjávarafurðum ef farið er þetta mikið fram úr ráðlögðum afla?

Ég bendi á það að stærsta útflutningsfyrirtæki sjávarafurða hér á landi sótti nýlega um alþjóðlega vottun á sinn fisk og að mati þess mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar, gríðarlega alvarlegar afleiðingar ef farið verður að þessu marki fram úr ráðlögðum afla, rétt eins og gerðist hér fyrir tveim eða þrem árum þegar sjávarafli var aukinn mjög mikið eða þorskveiðiaflinn. Það hafði gríðarlegar afleiðingar. Og margir vilja meina það í sjávarútvegi að þeir hafi ekki haft mikið upp úr þeim bransa.