139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi frá félags- og tryggingamálanefnd til laga um breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Þetta frumvarp hefur að markmiði að sníða ýmsa annmarka af lögum um greiðsluaðlögun, skýra ákvæði og tryggja virkni greiðsluaðlögunar og samræmda framkvæmd hennar. Lagðar eru til breytingar á lögunum sem ég nefndi hér að framan.

Hinn 24. júní 2010 samþykkti Alþingi lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og um breytingu á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun, og einnig um tímabundin úrræði einstaklinga sem eiga tvær eignir til heimilisnota. Lögin tóku gildi 1. ágúst sl. og á sama tíma tók embætti umboðsmanns skuldara til starfa. Þegar framangreind lög er varða skuldavanda heimilanna og umboðsmann skuldara voru samþykkt lá þegar fyrir og var nokkuð ljóst að hugsanlega þyrfti að gera breytingar á þeim þegar komin væri einhver reynsla af framkvæmd þeirra.

Frumvarp það sem varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga var unnið af félags- og tryggingamálanefnd á grundvelli frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra og með aðkomu og aðstoð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og réttarfarsnefndar. Lögunum er ætlað að standa til langs tíma og gera einstaklingum í greiðsluvanda kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn óháð aðstæðum í samfélaginu. Því er mikilvægt að fylgjast vel með framkvæmd laganna og nefndin einsetti sér frá upphafi að fylgjast náið með störfum umboðsmanns skuldara og virkni þeirra laga sem hann vinnur eftir til að tryggja að um skilvirk úrræði væri að ræða sem tækju þá á skuldavanda einstaklinga og heimila og byðu upp á virkar lausnir.

Nefndin hefur átt nokkra fundi með umboðsmanni skuldara þar sem sem komið hefur verið á framfæri ábendingum um hvað betur mætti fara í lögunum og er frumvarpið unnið á grundvelli þessara ábendinga. Þá sendi nefndin drög að frumvarpinu til forsætisráðuneytis, dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis og fékk frá þeim gagnlegar athugasemdir og ábendingar. Það er vert að árétta að áfram verður fylgst náið með virkni laganna og starfsemi umboðsmanns skuldara og lagðar til frekari breytingar verði talin þörf á því til að skýra enn frekar ákvæði laganna og tryggja virkni þeirra.

Frú forseti. Ég hyggst ekki fara í smáatriðum í einstakar greinar frumvarpsins en þær fjalla m.a. um skilgreiningar á hugtakinu „ríkisborgari“ og hverjir hafi aðkomu eða aðgang að þessum lögum. Þær fjalla um nánari skilgreiningu á aðkomu lánasjóðs og lánakrafna frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, þær fjalla um og eru til skýringar á þeim misskilningi sem hefur m.a. gætt vegna krafna á hendur ábyrgðarmönnum, eins og getið er um í 5. gr. frumvarpsins og kemur glöggt fram í skýringum með því.

Ég legg til að frumvarpið fari eftir 1. umr. til félags- og tryggingamálanefndar sem væntanlega mun fara aftur yfir málið og senda það til umsagnar en tel ekki þörf á að fylgja málinu úr hlaði að þessu sinni með ítarlegri hætti.