139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[18:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það orð hefur farið af Alþingi í almennri umræðu að menn séu að karpa og pexa alla daga, en ég vil undirstrika það að þau lög sem sett voru 24. júní, allir þessir lagabálkar, voru að miklu leyti samin í hv. félags- og tryggingamálanefnd með samstöðu allra flokka.

Hér kemur aftur fram frumvarp sem menn áttu von á að þurfa að flytja vegna þess að nú er að koma reynsla á framkvæmd þessara laga. Þá þarf að laga ýmsa þætti og aftur vinna allir flokkar í félags- og tryggingamálanefnd hv. að þessari lagasetningu. Ég tel að það sé til fyrirmyndar hvernig hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur unnið þetta.