139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í gærkvöldi að fréttir bárust af því, þó að þær væru ekki miklar, að fréttamanni hefði verið sagt upp hjá Ríkisútvarpinu. Ástæðan sem hefur komið fram í fjölmiðlum er sú að viðkomandi fréttamaður skrifaði bók um fyrrverandi ráðherra. Nú er það ekki svo að fréttastjóri hafi ekki vitað að hann ætlaði að skrifa bók um fyrrverandi ráðherra. Fréttamaður tilkynnti fréttastjóra það og gerði fréttastjóri ekki athugasemdir við það í janúar en þegar í ljós kemur að fyrrverandi ráðherra er Árni Mathiesen horfir málið öðruvísi við.

Ég veit, virðulegi forseti, að fréttamaðurinn fékk ekkert tækifæri til málsvarnar í þessu máli. Við vitum það öll sem hér erum að í okkar litla landi skipta fréttamenn og starfsmenn Ríkisútvarpsins sér af ýmsu, starfa á ýmsum stöðum í frítíma sínum og beita sér með ýmsum hætti. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gengið hart fram gagnvart því fólki sem skiptir sér af þjóðmálum. Í þessu tilfelli er ekki um það að ræða, heldur það að viðkomandi aðili er að skrifa bók. Viðkomandi fréttamaður hefur ekkert — ég kannaði það — skrifað um landsdóm eða skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða um þennan fyrrverandi ráðherra. Honum er sem sagt sagt upp og fær ekkert tækifæri til að verja sig.

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á því að heyra sjónarmið fleiri þingmanna, sérstaklega stjórnarþingmanna, af því að ég held að við viljum öll sjá (Forseti hringir.) frelsi í fjölmiðlum og fagleg vinnubrögð. Það væri ágætt að heyra sjónarmið stjórnarþingmanna á þessu máli.