139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um mikilvægi þess að ríkisstjórnin beiti sér á því svæði sem hér um ræðir. Ég tel að ríkisstjórnin hafi sýnt það vel í verki í gær þegar hún hélt fund á svæðinu og kynntur var langur listi yfir aðgerðir sem hún hefur hugsað sér að grípa til. Það er fagnaðarefni að mínu mati að ríkisstjórnin sýni það með svo afgerandi hætti að hún ætli að láta til sín taka á þessu svæði þar sem atvinnuleysið er mest og vandinn jafnstór og raun ber vitni.

Ég tek undir með hv. þingmanni að því leyti til að mikilvægt er að þingmenn og sveitarstjórnarfólk taki höndum saman í þessum efnum. Þess vegna var svolítið leiðinlegt að upplifa það í þinginu í gær að eina atriðið sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu að umtalsefni í þingsal hefði verið svokallað hergagnasafn sem var ein þeirra fjölmörgu hugmynda sem ræddar voru á þessum fundi. Þeir létu eins og það hefði verið það eina nýja sem þarna var lagt til. (Gripið fram í.) Það er af og frá (Gripið fram í: Hitt fór allt í nefnd.) að svo hafi verið, þetta var afar villandi málflutningur. Meina menn þá ekkert með því þegar þeir tala um nauðsyn þess að vinna saman að lausn í þessu brýna verkefni? Meina menn þá ekkert með því þegar þeir haga málflutningi sínum með þessum hætti? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því að menn kjósa að gera eitt atriði að einhverju sérstöku umtalsefni og eiginlega aðhlátursefni, að það sé til vitnisburðar um einhvers konar aumingjaskap ríkisstjórnarinnar? (Gripið fram í.)

Þegar menn ganga fram með þessum hætti, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, vaknar sú grunsemd að það sé bara gamaldags pólitík sem býr að baki en ekki raunverulegur vilji til að leysa vandamál sem er gríðarlega brýnt að við tökum höndum saman um að leysa. (Gripið fram í.)