139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Timo Summa, formaður sendinefndar ESB á Íslandi, tjáir sig um fyrirhugað kynningarstarf sambandsins á Íslandi næstu missiri. Á næstu tveimur árum er áætlað að til þessa kynningarátaks renni 155 milljónir íslenskra króna, þ.e. um 1 milljón evra. Sambandið ætlar að halda hér úti fjórum, fimm starfsmönnum sem hafa það að fullum starfa að dreifa upplýsingum um sambandið til almennings. Áætlað er að skrifstofan í Aðalstræti og útibú hennar á Akureyri muni styðja fyrirlestrahald og annað kynningarstarf á vegum sambandsins.

Svo ber þannig við að hér á landi eru í gildi lög nr. 62/1978 sem banna fjárhagslegan stuðning erlendra aðila og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi. Það hefur orðið nokkuð mikil réttarþróun í blaðaútgáfu og þeim dómum sem að henni falla varðandi prentfrelsi og meiðyrðamál. Hæstiréttur hefur lögjafnað frá þeim lögum yfir á netmiðla og hið nýja umhverfi fjölmiðla á Íslandi þannig að ég tel að þessi lög séu í fullu gildi með vísan í dóma Hæstaréttar. Í 1. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.“

Því langar mig til að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, varaformann utanríkismálanefndar — formaður nefndarinnar gat því miður ekki verið við þessa fyrirspurn: Hvernig ætlar utanríkismálanefnd að bregðast við þessu lögbroti Evrópusambandsins? Hvað skal gera? Verður ekki að banna Evrópusambandinu þetta kynningarstarf á grundvelli þessara laga?