139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gæti bara verið mjög snögg og sagt: Nei, það þarf ekki að banna neitt vegna þess að það er alls ekki verið að brjóta þessi lög sem hv. þingmaður, lögfræðingurinn, vitnar til.

Við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það eru samningaviðræður í gangi við Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur sett hér upp skrifstofu til að sinna þeim verkum sem að þeim snýr, að hluta til þannig að við þurfum ekki alltaf að sækja allt í 3–4 þús. kílómetra fjarlægð.

Evrópusambandið hyggst kynna þá löggjöf sem gildir í Evrópusambandinu, löggjöf sem þessi þjóð, þetta þing, hefur lagt til að við semjum um við Evrópusambandið, þ.e. hvort við getum orðið aðilar að samstarfinu. Það er nú allt og sumt sem er verið að gera. Það er verið að uppfræða fólk, segja fólki staðreyndir um (Gripið fram í.) þetta merka samstarf ríkja — (Gripið fram í.) Fyrirgefðu? (Gripið fram í: Nei, ég var bara …)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að leyfa hv. þingmanni að ljúka máli sínu. Þeir geta komist að síðar, óski þeir þess.)

Bara því miður, forseti, ég er ekki —

(Forseti (RR): Hv. þingmenn, vinsamlega hafa einn fund í salnum.)

Ég þakka hæstv. forseta vegna þess að það er mjög leiðigjarnt að standa í þessum stól og þurfa alltaf að hlusta á gaspur úti í sal. Það er nógu mikið gaspur sem kemur úr stólnum oft. [Hlátur í þingsal.]

Þá ætla ég að segja að stutta svarið við spurningu hv. þingmanns sé: Nei, það þarf ekki að taka á þessu fræðslustarfi og því starfi sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur fyrir hér á landi. Það er gott starf og mun koma okkur til góða, öllum.