139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að blanda mér inn í þá umræðu sem hér er í gangi og snýr að þeim fjármunum sem Evrópusambandið hyggst setja hér í kynningarstarfsemi.

Það er eitt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir virðist hafa gleymt, því að íslenska þjóðin er algerlega andsnúin aðild að Evrópusambandinu, (Gripið fram í: Nú?) meiri hluti hennar. Hluti af því sem Evrópusambandið vinnur nú að á Íslandi er að kanna jarðveginn, vera hér með skoðanakannanir, borga fólki fyrir að koma af landsbyggðinni suður til Reykjavíkur og svara ákveðnum spurningum. Þetta er ágætlega útlistað í Morgunblaðinu í dag, Evrópusambandið er að undirbúa hér auglýsingaherferð. Og við hljótum — (Gripið fram í.) Ég bið hæstv. forseta um að —

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að leyfa hv. þingmönnum að ljúka máli sínu í pontu.)

Við hljótum að hafa ákveðnar áhyggjur af því þegar hingað streyma gríðarlegir fjármunir frá einum aðila inn í svona baráttu og hljótum einfaldlega að grípa til aðgerða hvað það snertir.

Þetta skynjaði ég til að mynda á málþingi Vinstri grænna sem haldið var fyrir skömmu. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa hins vegar ekki áttað sig á því að það er vaxandi andstaða við það að vera í þessu ferli. Það er vaxandi andstaða við það að hingað streymi fjármunir og við hljótum að ætla að hér verði tryggð réttlát og opin umræða um Evrópusambandið. Það verður ekki gert þegar ótakmarkað fjármagn streymir frá einum aðila inn í þá baráttu. (Gripið fram í: Lifi landbúnaðurinn.)