139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Ég held að það væri gaman að fá umræðu frá Samfylkingunni og sjálfstæðismönnum um þá atvinnuuppbyggingu og þann niðurskurð sem á sér stað í Þingeyjarsýslum. Það eru vissulega erfiðir tímar á Suðurnesjum en ástandið í Þingeyjarsýslum er jafnslæmt, jafnvel þó að atvinnuleysið mælist ekki jafnhátt. Það má kannski jafna því út með því að lesa í tölur brottfluttra einstaklinga, og þá sérstaklega ungs fólks.

Mig langar til að bregðast hér aðeins við því sem hv. þm. Skúli Helgason sagði áðan. Hann ræddi um að það þyrfti frekar að horfa í kvennastörf og að karlmenn frekar en konur ynnu í álverum. Þetta er mikill misskilningur. Stór hluti þeirra sem vinna í álverum er einmitt konur. Það hefur verið sýnt fram á það, sérstaklega á Austurlandi, að þau afleiddu störf sem skapast eru fyrst og fremst unnin af konum. Þess vegna held ég að við ættum einmitt líka að horfa á það að sá niðurskurður sem er boðaður í heilbrigðisþjónustunni úti um allt land beinist fyrst og fremst að konum og kvennastörfum.

Þessi ríkisstjórn hefur talað fyrir því að það þurfi að vernda þessi störf. Eitthvað hefur verið minnst á kynjaða hagstjórn. Þau skref sem er verið að stíga núna ganga einfaldlega þvert á allt það sem sagt hefur verið.

Nú hvet ég þingheim allan til að huga sannarlega að Suðurnesjum og þeim sem búa þar. Við skulum líka horfa á önnur svæði sem hafa farið mjög illa út úr kreppunni, eins og í Þingeyjarsýslum, og sammælast um að vinna að atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) og hætta við þann boðaða niðurskurð sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á.