139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að ríkisstjórnin sýni atvinnumálum á Suðurnesjum áhuga. Það er vel og það var gert hér af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í ræðustól í gær. Það hefðu menn heyrt hefðu þeir setið og hlustað á umræðuna.

Það er fagnaðarefni að heimamenn sjái loksins að verkefni þeirra fái athygli. Það er mjög gott, en hins vegar verður að fylgja þeim eftir og koma þessum verkefnum í framkvæmd. Það dugar ekki eitt og sér að halda fundi og segjast ætla að skoða hlutina. Menn og konur á Suðurnesjum sem ganga þar um atvinnulaus vilja fá að sjá verkin komast áfram, að þetta séu ekki bara einhver orð á fínum fundum heldur að þeim sé fylgt eftir.

Fjöldi kvenna er atvinnulaus á Suðurnesjum. Konur vinna líka í álverum og það er ekki rétt að tala um þessi störf með þeim hætti að þau séu eingöngu fyrir karlmenn. Það furðar mig að við stöndum hér í dag, árið 2010, og áttum okkur ekki á því að konur sækja líka vinnu í álver.

Þau verkefni sem hafa verið efst á baugi á Suðurnesjum, ECA-verkefnið, aukin víðsýni í heilbrigðisþjónustu, gagnaver og kísilver, eru þau verkefni sem heimamenn binda miklar vonir við og hafa gert mjög lengi. Þeir vilja sjá þau komast í framkvæmd. Og nú er það einfaldlega krafa okkar þingmanna hér og allra Suðurnesjamanna að þessum orðum fylgi einhver verk og við förum að sjá einhvern árangur. Ég hvet alla þingmenn, stjórnarþingmenn sem stjórnarandstæðinga, til að taka höndum saman og vekja von hjá fólki um það, fólki á Suðurnesjum sérstaklega, að við ætlum ekki bara að tala, við ætlum líka að gera.