139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin meinar sannarlega það sem hún segir gagnvart Suðurnesjum og hugur fylgir máli. Ríkisstjórnin áformar sömuleiðis fjölgun starfa á grundvelli orkuvinnslu á norðausturhorninu og er reiðubúin til þess að ræða við Þingeyinga um hana.

Varðandi ótta hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan við upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins vil ég reyna að hressa hv. þingmann upp því að ég vil að hún sé brosandi og glöð. Miðað við skoðanir sínar á hún að líta svo á að hún sé lukkunnar pamfíll. Evrópusambandið hefur lengi starfrækt upplýsingamiðstöð í Noregi og þar hefur verið bullandi andstaða við Evrópusambandið. Hugsanlega gæti slík miðstöð því orðið vatn á myllu hv. þingmanns.

Ég kem þó hér upp út af einu atriði sem enginn þingmaður hefur nefnt í þessari umræðu. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um það sem hann áfelldist í ræðu sinni áðan. Mér finnst forkastanlegt að fréttamanni Ríkisútvarpsins sé sagt upp störfum vegna þess að hann skrifar samtalsbók við fyrrverandi stjórnmálamann. Mér finnst það algjörlega út í hött. Starfsmenn ríkisins hljóta eins og allir aðrir íslenskir þegnar að hafa rétt á því að tjá sínar eigin skoðanir í gegnum bók með þessum hætti. Það hvernig hv. þingmaður lýsti aðdraganda þess finnst mér gera málið enn þá svartara. Ég tel að þetta hljóti að vera handan við það sem rétt er og siðlegt án þess að ég þori að fullyrða að það sé löglaust. Mér finnst ekki að opinber stofnun eigi að haga sér með þessum hætti.

Ég tel að sú bók sem þessi fréttamaður er að skrifa varpi fróðlegu sjónarhorni á mjög þungvæga atburðarás í sögu þjóðarinnar. Mér finnst sjálfsagt að fyrrverandi stjórnmálamaður, sem var þátttakandi í þeirri atburðarás, skrifi bók um það og leggi hana fyrir þjóðina til að skýra sitt mál. Það er fráleitt (Forseti hringir.) að meina fréttamanni að taka þátt í því.